152. löggjafarþing — 45. fundur,  2. mars 2022.

ástandið í Úkraínu og áhrifin hér á landi.

[16:23]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S):

Herra forseti. Við erum að upplifa tíma sem munu hafa mikil áhrif á evrópsk öryggismál næstu áratugina. Á síðustu sólarhringum hefur verið dregin ný lína í sandinn í öryggismálum Evrópu. Skrefin sem Þjóðverjar tóku um síðastliðna helgi eru stór skref og söguleg og Svíþjóð hefur ekki flutt vopn til annars lands sem á í stríði síðan í vetrarstríðinu þannig að við erum að sjá merki um ótrúlega hluti miðað við stjórnmálasögu Evrópu undanfarna áratugi. NATO var stofnað 1949 og við erum svo heppin að tilheyra því þar sem öflug leiðsögn ráðamanna á þeim tíma leiddi okkur inn í NATO. Í dag eru 30 ríki í NATO eða um milljarður íbúa jarðarinnar. Það er ekkert annað jafn öflugt lýðræðisbandalag í heiminum en NATO, það hefur varið friðinn og flest ef ekki öll lýðræðisríki jarðar, öll þau helstu í það minnsta, eru í NATO. Við skulum hafa það að leiðarljósi að þau eru ekkert endilega svo mörg. Nú heyrum við líka að Evrópubúar huga nú mjög að vörnum og bæta í. Evrópusambandið greiðir í dag um 20% inn í NATO á móti 80% þeirra landa sem eru utan Evrópusambandsins.

Þetta er ótrúlegt innrásarstríð. Þetta er bara hreint og beint innrásarstríð sem rússnesk stjórnvöld — við skulum halda því til haga að það er stjórn Pútíns sem stýrir för, ekki rússneska þjóðin. Við styðjum Úkraínu og við skulum vera dugleg í mannúðarstörfum og leggja alla okkar áherslu í það og fjármagn og efla okkur þar, setjum miklu meira en 150 milljónir í þetta starf. Þar getum við gert okkur gild á erlendri grundu.