152. löggjafarþing — 45. fundur,  2. mars 2022.

ástandið í Úkraínu og áhrifin hér á landi.

[16:27]
Horfa

Jóhann Friðrik Friðriksson (F):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að þakka málshefjanda fyrir það sem snýr að mikilvægi þess að við sinnum bæði aðstoð við þau lönd sem nú glíma við allan þennan gríðarlega fjölda fólks sem sækir yfir landamærin frá Úkraínu, en ekki síður verðum við að axla okkar ábyrgð hér heima.

Þetta er eflaust margþættur vandi sem nú blasir við og að mínu viti einn stærsti flóttamannavandi sem upp komið hefur. Og þegar ég tala um vanda þá tala ég um vanda þess fólks sem glímir nú við að hafi verið rifið upp frá heimilum sínum og þurft að ganga langar leiðir til að sleppa við ógnargný sprengja sem falla nú á saklausa borgara í Úkraínu. Eina sem kemur upp í hugann og ég get mögulega borið saman er það skelfilega borgarastríð sem átti sér stað á Balkanskaga. Þá kom fjöldinn allur af flóttamönnum hingað til lands sem við tókum vel á móti, fólki jafnvel frá ólíkum þjóðarbrotum sem skömmu áður hafði háð stríð sín á milli. Aðlögun þessa fólks og aðstoð okkar Íslendinga hefur tekist vel. Það er okkur til sóma. Nú verður aftur leitað til okkar og að sjálfsögðu munum við ekki skorast undan. Við Íslendingar höfum margt að gefa, höfum mikla reynslu af því að taka á móti fólki, hlúa vel að því og tryggja að það njóti verndar og geti lifað sómasamlegu lífi á Íslandi.