152. löggjafarþing — 45. fundur,  2. mars 2022.

ástandið í Úkraínu og áhrifin hér á landi.

[16:34]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Virðulegi forseti. Ég tek að sjálfsögðu undir fordæmingu á ólögmætu innrásarstríði Rússlands í Úkraínu og styð þær aðgerðir sem ríkisstjórnin hefur ráðist í ásamt okkar vinaþjóðum, beitingu efnahagsþvingana og annarra viðurlaga gagnvart Rússlandi.

En ég vil koma hérna upp sem fulltrúi Íslandsdeildar Evrópuráðsþingsins og vekja athygli á því að Evrópuráðið vísaði Rússlandi úr Evrópuráðinu. Þetta mun hafa víðtækar afleiðingar í för með sér fyrir þetta hús lýðræðis og réttarríkis og mannréttinda í álfunni. Rússland greiðir mjög hátt aðildargjald, hátt hlutfall af því sem þarf til að reka þessa mikilvægu stofnun og sú ákvörðun að vísa Rússlandi úr Evrópuráðinu mun þar af leiðandi þýða töluvert högg fyrir Evrópuráðið. Nú er það svo að þýska þjóðþingið hefur ályktað að það muni tryggja það, alla vega af sinni hálfu, að ráðið verði ekki fyrir fjárhagslegum afleiðingum af því að hafa vikið Rússlandi úr Evrópuráðinu. Ég vildi því hvetja íslensku ríkisstjórnina til þess að eiga frumkvæði að því sama áður en ég fer að grípa til eigin ráða og leggja einhverja þingsályktunartillögu fyrir þingið, sér í lagi í ljósi þess að við erum að fara að taka við formennsku í ráðherraráðinu. Það væri góður bragur á því að við værum með í bandalagi þeirra ríkja sem tryggja það að réttarvernd íbúa í Evrópu muni ekki líða fyrir það að við höfum staðið með réttlætinu og staðið með íbúum Úkraínu með því að víkja Rússlandi úr Evrópuráðinu. (Forseti hringir.) Ég hvet hæstv. ríkisstjórn til að taka þátt í þessum aðgerðum til að tryggja að Evrópuráðið geti áfram sinnt sínu mikilvæga starfi í álfunni.