152. löggjafarþing — 45. fundur,  2. mars 2022.

almannatryggingar.

55. mál
[17:37]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta var áhugaverður flötur sem hv. þingmaður kom inn á. Ég hef búið erlendis, m.a. í Bandaríkjunum, og ég veit að þeir eru mjög uppteknar af tékkum þar enn þá, eða voru það alla vega síðast þegar ég var þar. Það er alveg með ólíkindum hvernig greiðslukerfið er þar. En þar er líka stór hluti fátæks fólks utan bankaþjónustu, mjög stór hluti með svokölluð „payday“-lán, sem eru okurlán. Ég myndi ekki bera okkur saman við Bandaríkin hvað þetta varðar. Ég fékk nýlega greiðslu frá Bandaríkjunum og það var eftir töluvert baks, tókst loksins, en í dag í Evrópu og líka í Bandaríkjunum er þetta ekkert mál raunverulega. Það eru allir bankar með svokallaðan SWIFT-kóða, við getum séð hann neðst á heimasíðum bankanna, kóði Arion banka er ESJAISRE, Íslandsbanka GLITISRE. SWIFT-kóðinn er það sem heitir Business Identity Code og svo eru allir einstaklingar með svokallað IBAN-númer, þ.e. allir bankareikningar á Íslandi eru með IBAN-númer eða hluta af því. Það er alþjóðlegt bankanúmer, International Bank Account Number, þannig að það að flytja peninga milli landa er ekkert mál, á ekki að vera neitt mál og Ísland er óvenjuvel staðsett hvað varðar greiðsluþjónustu og Norðurlöndin og Evrópa líka. Bankar meira að segja hagnast á millifærslunni á íslenskum krónum sem Tryggingastofnun myndi vera borga, kaupa krónur í leiðinni. Ég hef margoft flutt peninga milli Noregs og Íslands og ég hef aldrei pælt í kostnaðinum. Það er einhver kostnaður þarna og það að Tryggingastofnun skuli ekki borga hann er algjört hneyksli að mínu mati. Það er ekki neinn munur í vinnu að flytja peninga inn á íslenskan bankareikning og erlendan bankareikning. Það er í raun og veru bara munurinn á IBAN-númeri og hinu raunverulega bankanúmeri.

Ég spyr hv. þingmann: Sér hann einhvern mun á þessu? Sér hann einhver rök fyrir því, þó að það sé kannski meira vandamál í Bandaríkjunum, alveg örugglega í ljósi sögunnar en hefur reyndar skánað, alla vega miðað við mína síðustu reynslu, að þessi kostnaður eigi ekki að greiðast og eigi bara að vera sjálfsagt að Tryggingastofnun greiði, svo lítill sem hann er?