153. löggjafarþing — 45. fundur,  9. des. 2022.

fjárlög 2023.

1. mál
[15:59]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið en mig langaði kannski að fara aðeins lengra aftur. Hv. þingmaður minntist líka á efnahagshrunið þar sem fjöldi fólks missti húsnæði sitt til Íbúðalánasjóðs sem breytti þessu síðan í einhverja húsapakka sem þeir sem höfðu fjárhagslegt bolmagn til gátu keypt. Oft og tíðum var þessu fólki ekki boðið að kaupa heldur stóð það frammi fyrir þeim nöturlega sannleika að missa þakið ofan af sér. Það hefur ekki verið upplýst um það hverjir fengu svona afsláttarpakka, gátu keypt húsnæði í massavís. Við höfum heldur ekki fengið upplýsingar um það hverjir það voru sem komu með peninga til landsins í gegnum þessa svokölluðu fjárfestingarleið, fengu peninga á afslætti í samkeppni við aðra innan lands við að kaupa þessar fasteignir. Það er búið að skekkja samkeppnisstöðuna á Íslandi.(Forseti hringir.) Sér þingmaðurinn einhverja leið til að við getum undið ofan af þessu?