132. löggjafarþing — 46. fundur,  19. jan. 2006.

Rannsókn sjóslysa.

412. mál
[14:44]
Hlusta

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er aðeins eitt atriði sem ég hnýt um í umræddu frumvarpi. Það er í umsögn fjármálaráðuneytisins um hvaða kostnaðarauki geti orðið af þessari breyttu tilhögun. Ég geri í sjálfu sér ekki, alla vega ekki við fyrstu sýn, neinar athugasemdir við þær breytingar sem hér er verið að leggja til. En áskil mér þó rétt til að hugsa það mál betur.

Hér segir í umsögn fjármálaráðuneytis að breytingar gætu orðið, sem sagt verði frumvarpið óbreytt að lögum þá megi gera ráð fyrir að útgjöld vegna breytinga á stöðu framkvæmdastjóra nefndarinnar um rannsókn sjóslysa hækki samtals um 500 þús. til 1 millj. kr.

Mig langar að spyrja hæstv. samgönguráðherra hvort hann telji þetta raunhæfa áætlun hjá fjármálaráðuneytinu, af því ef við erum að tala hér um eitt stöðugildi þá mun þessi starfsmaður ekki ná því sem við mundum nú líklega telja lágmarkslaun á Íslandi svo ekki sé talað um þann launakostnað sem til fellur. Mig langar því að inna hæstv. samgönguráðherra eftir því hvað hann telji raunhæft að áætla sem kostnaðarauka vegna þessarar ráðstöfunar af því að ég mundi halda í fljótu bragði að það lægi frekar nær fjórum millj. en hálfri til einni.