133. löggjafarþing — 46. fundur,  8. des. 2006.

málefni aldraðra.

190. mál
[21:26]
Hlusta

Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Við höfum þann háttinn á hér á landi að hafa sérstakan nefskatt til þess að fjármagna uppbyggingu hjúkrunar- og dvalarheimila og þjónustu við aldraða. Eins höfum við það lögfest að nefskattur sem þessi má ekki hækka sjálfkrafa þannig að á hverju ári verðum við að taka það fyrir á Alþingi og ákveða hækkun í þennan sjóð, Framkvæmdasjóð aldraðra, og hann hækkar samkvæmt vísitöluhækkunum eins og eðlilegt er.

Ég var fjarverandi við afgreiðslu þessa máls en eðlilega samþykki ég þessa hækkun. En enn og aftur vil ég leggja áherslu á þá gagnrýni sem hér hefur komið fram frá Vinstri hreyfingunni – grænu framboði á hverju ári og við afgreiðslu þessa máls og afgreiðslu sérstakra fjárlaga, að Framkvæmdasjóður aldraðra skuli ekki með alveg fullum framlögum vera notaður til uppbyggingar á hjúkrunar- og dvalarheimilum eins og honum er ætlað. Þess í stað hafa verið tekin allt að 50% af þessum sjóði í rekstur öldrunarheimila og þjónustu við aldraða. Ég tel það vítavert og orsök þess að uppbygging þessarar þjónustu hafi setið á hakanum og er jafnmikið gagnrýnd og raun ber vitni í dag.

Hvað varðar breytinguna, hækkunina, þá tek ég undir þessa hækkun og styð hana og styð það eindregið að Framkvæmdasjóður verði allur notaður til uppbyggingar.