136. löggjafarþing — 46. fundur,  9. des. 2008.

málefni Ríkisútvarpsins.

[14:23]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Herra forseti. Ég vil eins og aðrir þakka hv. þm. Katrínu Jakobsdóttur fyrir að hefja þessa umræðu um málefni Ríkisútvarpsins. Ljóst er og við höfum tekið eftir því í fréttaflutningi að það er að mörgu leyti illa fyrir Ríkisútvarpinu komið. Ekki er hægt að loka augunum fyrir því að 700 millj. kr. niðurskurður er auðvitað þungbær fyrir Ríkisútvarpið en hann helgast af aðstæðum í þjóðfélaginu og efnahagsmálunum. Þungbærastar eru auðvitað uppsagnir sem stjórn félagsins þurfti að ráðast í vegna niðurskurðaraðgerðanna og nú hafa því miður margir starfsmenn Ríkisútvarpsins misst atvinnu sína. Vonandi verður breyting þar á í komandi framtíð en ekki er annað hægt en viðurkenna að þetta er mjög erfitt og þungbært fyrir þá sem í hlut eiga.

En við verðum að skoða stöðu Ríkisútvarpsins og setja hana í samhengi við ástandið á fjölmiðlamarkaði almennt. Við höfum upp á síðkastið fengið fréttir af því að Skjár einn hefur sagt upp öllu starfsfólki sínu. Viðskiptablaðið kemur út núna einu sinni í staðinn fyrir fimm sinnum í viku. Morgunblaðið hefur ekki getað greitt starfsfólki sínu laun á réttum tíma, 365 eru í kröggum og svo mætti lengi telja. Með öðrum orðum er ástandið á íslenskum fjölmiðlamarkaði grafalvarlegt. Það er engin ástæða til að draga fjöður yfir þá staðreynd.

Hæstv. menntamálaráðherra má eiga það að hann skipaði starfshóp sem ég á sæti í sem hefur fjallað um aðgerðir sem hafa það að markmiði að gæta hagsmuna Ríkisútvarpsins og annarra fjölmiðla. Vonandi skilar sú vinna árangri en ég held því miður að ástandið á fjölmiðlamarkaði muni ekki batna fyrr en efnahagslífið nær að rétta úr kútnum. Úr því að áskorun kom frá (Forseti hringir.) hv. þm. — herra forseti, ég vil taka það fram — Katrínu Jakobsdóttur að eðlilegt væri að menntamálanefnd fái upplýsingar frá stjórnendum Ríkisútvarpsins (Forseti hringir.) finnst mér sjálfsagt og mun beita mér fyrir því að útvarpsstjóri og formaður stjórnar Ríkisútvarpsins ohf. verði kallaðir fyrir nefndina á morgun (Forseti hringir.) til að svara spurningum þingmannsins.