137. löggjafarþing — 46. fundur,  23. júlí 2009.

aðild starfsmanna við samruna félaga með takmarkaðri ábyrgð yfir landamæri.

37. mál
[14:58]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Þetta er algerlega óskiljanlegur málflutningur. Þessi þrjú mál eru gríðarlega mikilvæg fyrir vinnandi fólk í landinu. Það er nöturlegt að hv. þingmaður skuli koma upp og ráðast sérstaklega að þessari ríkisstjórn og hæstv. félagsmálaráðherra fyrir að bera þessar réttarbætur inn í þingsal. Eins og ég sagði áðan koma starfsmenn að borðinu við samruna félaga yfir landamæri. Í máli nr. 7 er verið að auka réttindi fólks í hlutastörfum. Hlutastörfum fer fjölgandi í atvinnuleysinu og það þarf að tryggja réttindi fólks. Með þriðja málinu, tímabundinni ráðningu starfsmanna, er verið að koma í veg fyrir misnotkun á fólki í tímabundinni ráðningu. Þannig að þetta eru gríðarlega mikilvæg mál og dapurlegt að heyra þennan málflutning hjá fulltrúa Sjálfstæðisflokksins.