138. löggjafarþing — 46. fundur,  16. des. 2009.

störf þingsins.

[10:52]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka þá umræðu sem orðið hefur um það mál sem kom upp í fjárlaganefnd í morgun. Það kom fram í máli hv. þm. Björns Vals Gíslasonar áðan að fjármálaráðuneytið líti ekki svo á að ríkið sé að selja hlut sinn í nýju bönkunum. Það liggur fyrir að það var heimild til samninga í fjáraukalögum 2008 fyrir stofnun bankanna, það liggur fyrir að í fjárlögum 2009 var lagt inn fé til að stofna bankana, 385 milljarðar. Ríkið átti 100% hlut í bönkunum. Kröfuhafar yfirtóku 87% í Arion banka, 95% í Íslandsbanka. Hvernig fór þá hlutur ríkisins úr því að vera 100% niður í 5% og niður í 13% í hinum bankanum? Var hann gefinn? (TÞH: Næstum því.) Hverjir fengu hlut ríkisins gefins? Ef þessi hlutur var ekki keyptur af ríkinu, var hann þá gefinn? Það er engin heimild frá Alþingi til að selja hlut sinn. Er þetta hin nýja einkavæðing Vinstri grænna? Það veit enginn hverjir eru vinir þeirra, það má ekki upplýsa það. Ég skora á hv. þingmann og hv. þingmenn Vinstri grænna að upplýsa hverjir fengu hlutinn gefins ef hann var ekki seldur. Ef hluturinn var seldur skortir heimild frá Alþingi til sölunnar. Á það bentu fulltrúar stjórnarandstöðunnar í vinnu og umræðum um fjáraukalögin, þeir bentu á þessar villur, á þessa yfirferð, sérstaklega að því er laut að meðferð bankanna. Þær ábendingar voru ekki teknar til greina og þá standa menn uppi með að það skortir lagaheimild fyrir þessari gerð. Hvernig ætlar stjórnarliðið að bæta úr því?