138. löggjafarþing — 46. fundur,  16. des. 2009.

ummæli sem féllu í umræðum um störf þingsins.

[11:07]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Öðruvísi mér áður brá ef hæstv. utanríkisráðherra er orðinn með viðkvæmustu mönnum á Alþingi. Ég benti á það (Gripið fram í.) í ræðustól að það væri ekki venja ráðherra, hvað þá hæstv. utanríkisráðherra eftir því sem ég best veit, að taka þátt undir liðnum um störf þingsins enda er þetta liður sem óbreyttir þingmenn, eins og sá sem hér stendur, hafa til að spyrja hver annan. Þannig hefur þessi liður virkað frá því að Samfylkingin breytti þingskapalögunum.

Varðandi það að ég hafi haft uppi meiðyrði um einstaka ráðherra vil ég bera af mér sakir hvað það varðar. Það hef ég aldrei gert. Ég hef hins vegar furðað mig á fjarveru ýmissa þingmanna og ráðherra, þá sérstaklega í Icesave-umræðunni. Ef hæstv. utanríkisráðherra á við það að ég hafi talað of lítið (Forseti hringir.) var kvartað yfir því að ég væri einn þriggja aðila á þessu þingi sem talaði hvað mest í Icesave-málinu. (Forseti hringir.) En ég ber af mér sakir, virðulegi forseti, varðandi það að ég hafi haft uppi meiðyrði gagnvart hæstv. ráðherrum (Forseti hringir.) og legg til og vonast til að hæstv. utanríkisráðherra dragi þau orð til baka. (Forseti hringir.)