138. löggjafarþing — 46. fundur,  16. des. 2009.

ummæli sem féllu í umræðum um störf þingsins.

[11:14]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég tek undir flest af því sem hér kom fram hjá hv. þm. Árna Þór Sigurðssyni, en þegar við tölum um störf þingsins held ég að við séum kannski komin að kjarna málsins. Fjölmörg mál sem tengjast efnahagshruninu eru mjög viðkvæm og þarf að fara vel yfir en því miður hefur stjórnarmeirihlutinn skipulagt þetta með þeim hætti að menn ætla að keyra í gegn með góðu eða illu, aðallega illu, Icesave-samninginn sem gerir það að verkum (Forseti hringir.) að þegar kemur …

(Forseti (RR): Um fundarstjórn forseta, hv. þingmaður.)

Ég er nákvæmlega að ræða fundarstjórn og störf varðandi það hvernig við högum þingstörfum. Varðandi t.d. þetta stóra mál bað ég um fund í hv. viðskiptanefnd 3. desember. Við erum mjög ánægð með hv. formann viðskiptanefndar en við komumst ekki yfir þetta vegna þess að áherslurnar varðandi starfsemi þingsins, virðulegi forseti, eru (Forseti hringir.) með þeim hætti að stór mál eru að renna í gegn án umræðu. Það er mjög hættulegt.