138. löggjafarþing — 46. fundur,  16. des. 2009.

hlutafélög og einkahlutafélög.

71. mál
[13:30]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S):

Virðulegi forseti. Þessi grein kveður á um að því verði beint til einkahlutafélaga að þau hugi að sem jafnastri kynjasamsetningu bæði í stjórnum og framkvæmdastjórnum félaga, þessar greinar.

Nú er það svo, eins og ég lýsti hér í fyrri atkvæðaskýringu minni, að ég er stuðningsmaður einstaklingsfrelsis. Ég get ekki með nokkru móti séð af hverju Alþingi ætti að hlutast til um það ef konur taka sig saman og stofna fyrirtæki, af hverju Alþingi ætti að reyna að brjóta það upp. Við sjáum fyrirmyndarfyrirtæki sem sett var á stofn fyrir einum tveim árum, Auður Capital, sem hefur kvenleg gildi að leiðarljósi, og ég skil ekki með nokkru móti af hverju þær konur sem þar tóku sig saman ættu ekki að mega reka slíkt fyrirtæki. (Forseti hringir.) Ég er eindregið á móti slíkum fyrirskipunum að ofan og segi nei.