139. löggjafarþing — 46. fundur,  13. des. 2010.

menningar- og heilsutengd ferðaþjónusta á höfuðborgarsvæðinu.

207. mál
[11:16]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Ragnheiður Ríkharðsdóttir) (S):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin. Ég vil taka það fram að ég er meðvituð um það sem hæstv. ráðherra hefur gert í ráðuneyti sínu og þetta var ekki sending til hæstv. ráðherra um illa unnin störf eða neitt í þá veru, svo það sé tekið fram.

Ég greip niður í tvö skjöl. Annað er frá Ferðamálastofu 2008 og hitt er frá Ferðamálastofu 2010 um úthlutun styrkja. Þar kemur glöggt fram að árið 2008 fékk Hafnarfjarðarbær sem er á suðvesturhorninu, stuðning upp á 1,5 millj. vegna viðhalds og öryggisaðgerða við Seltún í Reykjanesfólkvangi. Árið 2010 fær sama bæjarfélag, Hafnarfjarðarbær, og Reykjanesfólkvangur 1 millj. kr. fyrir Seltún í Krýsuvík. Þetta er af styrkjum áranna 2008 og 2010 frá Ferðamálastofu. Þetta er eina verkefnið sem hlaut framgang á stór-höfuðborgarsvæðinu, þ.e. Seltún í Krýsuvík fyrir framgöngu Hafnarfjarðarbæjar sem vinnur verkefnið. Því ber að fagna.

Fyrst og síðast, frú forseti, þakka ég hæstv. ráðherra fyrir að hafa tekið með þeim hætti sem hún gerði í þessa fyrirspurn og fyrir svar hennar um að horfa mætti til þess, varðandi styrkina sem Ferðamálastofa veitir og fleiri styrki, að landið er eitt og þjóðin er ein og taka mætti tillit jafnt til höfuðborgarsvæðisins sem landsbyggðarinnar. Við þurfum kannski að fara að hugsa sem ein þjóð í einu landi og hugsa um það hvernig við getum best varið þeim fjármunum sem eru skattfé landsmanna allra til þeirra verkefna sem helst skyldi óháð búsetu.