139. löggjafarþing — 46. fundur,  13. des. 2010.

aukin verkefni eftirlitsstofnana.

240. mál
[12:17]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Þó að það sé þannig að fjármálaráðuneytinu sé fátt óviðkomandi, og ég kinoka mér síður en svo við því að svara þessari fyrirspurn, hún er góðra gjalda verð, þá heyra reyndar mjög fáar eiginlegar eftirlitsstofnanir undir fjármálaráðuneytið. Við erum hins vegar með allmargar umsýslustofnanir sem nær er að kalla svo. Þar má nefna stofnanir eins og Bankasýsluna, Fasteignir ríkissjóðs, Fjársýslu, Framkvæmdasýslu ríkisins, Ríkiskaup og embætti tollstjóra. En sannanlega er einn stór eftirlitsaðili sem heyrir undir fjármálaráðuneytið og það er ríkisskattstjóri sem hefur 9 starfsstöðvar og þar af 7 utan höfuðborgarsvæðisins. Ég vil aðeins fara yfir málefni þeirrar stofnunar og þær breytingar sem hún hefur tekið.

Hinn 1. janúar sl. var allt landið gert að einu skattumdæmi og það hafði í för með sér að 9 sjálfstæðar skattstofur voru sameinaðar undir embætti ríkisskattstjóra. Við þá sameiningu var tekin sú ákvörðun að allar skattstofurnar nema ein, þ.e. Skattstofan í Reykjavík, sem lögð verður niður um næstu áramót, yrðu gerðar að starfsstöðvum embættisins. Í reynd þýddi þetta að það varð, má segja, enn meiri dreifing á verkefnum stofnunarinnar þar sem stór skattstofa á höfuðborgarsvæðinu var lögð niður með breytingunum en öllum öðrum starfseiningum við haldið. Ríkisskattstjóri verður því með starfsstöðvar á Akureyri, Akranesi, Egilsstöðum, Hafnarfirði, Hellu, Ísafirði, Reykjavík, Siglufirði og Vestmannaeyjum og þeim verður haldið áfram.

Samhliða þessu, og það hefur gildi í þessari umræðu, verður unnið að enn frekari sérhæfingu starfseminnar á hverri starfsstöð þó að sjálfsögðu með tilliti til þeirra starfsmanna sem þar starfa og möguleika. Þannig voru t.d. í fyrra skipulaginu starfræktar 5 sjálfstæðar eftirlitsdeildir á landinu öllu en með breytingunni runnu þær saman í eina heild með starfsstöðvar á þremur stöðum, á Akureyri, Akranesi og í Reykjavík. Það var líka lögð mikil áhersla á þetta, og ég skrifaði skattstjóra sérstakt bréf sem var stefnumótandi fyrir þá vinnu þegar sameiningin var í undirbúningi, að ríkisskattstjóri hefði áfram starfsemi sem víðast um land og það sést á þessu, eins og áður sagði, að einungis ein eining, Skattstofan í Reykjavík, var lögð niður en öllum öðrum einingum viðhaldið og sumar þeirra hafa verið efldar. Þessi endurskipulagning er nú nokkurn veginn um garð gengin og ég tel að hún hafi tekist vel og skattstjóri og hans starfsfólk eigi heiður skilinn fyrir hvernig það hefur gengið. Ég var á stórum fundi allra starfsmanna hins nýja embættis á dögunum þar sem ég gat ekki betur heyrt en almennt ríkti ánægja með það hvernig þetta hefði gengið. Þarna eru menn með skipulag sem býður upp á alla kosti þess að dreifa verkefnum og nýta sér tækni fjarvinnslu og rafrænnar vinnslu. Þar kemur okkur til góða að skatturinn er í fremstu röð hvað það snertir.

Ég veit að umhverfisráðherra, sá sem nú situr, er áhugasamur um að færa verkefni eftirlitsstofnana sem undir það ráðuneyti heyra og þar á meðal ekki síst á sviði heilbrigðiseftirlits og ég veit ekki betur en sú vinna sé í fullum gangi. Ég vil líka nefna það sem heyrir undir fjármálaráðuneytið og er af öðru tagi en það er sú forusta sem ráðuneytið hefur í sambandi við rafræn skilríki og að reyna að ýta á eftir því að menn í auknum mæli bjóði upp á rafræna þjónustu. Innleiðing og aukin notkun rafrænna skilríkja er mikilvæg í þeim efnum til að menn geti staðfest með skilríkjunum undirskrift sína eða tilvist sína eða að þeir séu þeir sem þeir eru. Það er einnig sérlega áhugavert að skoða möguleikana á rafrænum skilríkjum fyrir ungmenni, t.d. verkefni sem eru í gangi um að búa til lokaðar spjallrásir þar sem rafræn skilríki eru aðgönguskilyrði og þá kemur aldur skilríkishafans fram og eingöngu þeir sem geta með rafrænu skilríki sýnt að þeir séu á viðkomandi aldri komast inn á rásina. Þetta er samevrópskt verkefni þar sem Ísland er í forustu með Austurríki, að mig minnir, og einhverjum stofnunum og er mjög áhugavert og sýnir möguleikana í þessum efnum.

Fjármálaráðuneytið sjálft reynir fyrir sitt leyti að nýta sér þessa möguleika. Þannig er t.d. einn af starfsmönnum ráðuneytisins búsettur á Bíldudal og vinnur sína vinnu að mestu leyti þaðan og ef sýndur er vilji og hugkvæmni í þessum efnum er ekki nokkur minnsti vafi á að hægt er að nýta sér kosti þessarar tækni. Heilmikið jákvætt hefur þó gerst í sambandi við skönnunarvinnu og ýmsa fjarvinnslu sem komist hefur á á undanförnum árum. Það á bara að halda þessari þróun áfram og fjármálaráðuneytið er fyrir sitt leyti eindregið fylgjandi því að svo sé gert.