140. löggjafarþing — 46. fundur,  20. jan. 2012.

afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrv. forsætisráðherra.

403. mál
[14:49]
Horfa

Flm. (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég er sammála hv. þingmanni um það að sakamálalögin taka við til fyllingar landsdómslögunum. En nú kemur grundvallarspurningin: Hvar stendur það í landsdómslögunum að bannað sé að afturkalla ákærur? Hvar stendur það í einhverjum lögum á Íslandi að bannað sé að afturkalla ákæru í þessu máli? Ef það stendur hvergi í lögum og hvergi í landsdómslögunum að bannað sé að afturkalla ákæruna en það er hins vegar í lögunum sem eru landsdómslögunum til fyllingar, slíkt heimildarákvæði, hvernig getur þá hv. þingmaður komist að þeirri niðurstöðu að vegna einhverra skrifa fræðimanna fyrir nokkrum áratugum sé ómögulegt að komast að annarri niðurstöðu en að þetta sé bannað? Þetta er ótrúlegur málflutningur.

Ég ætla að bera upp aðra spurningu við hv. þingmann og hún er þessi: Getur saksóknari að mati hv. þingmanns afturkallað ákæru? Kynni hann að geta það eða getur enginn gert það, sama hvað kemur upp á?

Ég vek athygli á því að í þeirri tillögu sem við ræðum hér stendur að saksóknara sé falið að afturkalla ákæruna.