141. löggjafarþing — 46. fundur,  4. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[23:36]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Í fyrri ræðu minni hér í dag, um það sem hæstv. atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra hefur kallað besta fjárlagafrumvarpið sl. fjögur ár í það minnsta og ég gat ekki betur heyrt en bæði hann og nokkrir aðrir stjórnarþingmenn væru tilbúnir að lýsa því yfir í hæstu hæðum hvers lags dásemd þetta fjárlagafrumvarp væri, þá gagnrýndi ég nokkuð harðlega þá forgangsröðun sem kemur fram í frumvarpinu. Þó að ekki sé farið að ræða tekjuhlið frumvarpsins hefur það komið fram að ríkisstjórnin heldur áfram á sömu braut að hækka skatta sem hefur síðan víxlverkandi áhrif á sífellt hækkandi vísitölur og þar með verðtryggð lán heimila og er verðbólguhvetjandi.

Ég talaði einnig um það í fyrri ræðu minni að hvergi sæi þess stað að ríkisstjórnin hefði hug á því að koma til móts við skuldug heimili sem eru með verðtryggð lán og má eiginlega halda því fram að í raun gangi forgangsröðunin í þveröfuga átt þar sem hugmyndafræðin er að krefja bankana um arðgreiðslur sem á síðan að nota í fjárfestingargæluverkefni ríkisstjórnarinnar sem ég kem inn á síðar í ræðu minni þar sem ég komst ekki í það í fyrri ræðunni. Önnur hlið á þeim arðgreiðslum er auðvitað sú að stór hluti arðsins fer til þeirra sem eiga meira í bönkunum en ríkið og fara þar með úr hagkerfinu þar sem bankarnir, Arion banki að stærstu leyti og Íslandsbanki og að einhverju leyti Landsbanki, eru í eigu erlendra vogunarsjóða eins og fram hefur komið. Þetta er forgangsröðun núverandi ríkisstjórnar sem kennir sig við norræna velferð og kallar þetta fjárlagafrumvarp besta fjárlagafrumvarpið. Í því er ekki pláss fyrir löggæsluna í landinu, enn skortir minnst 300 milljónir.

Ég kom inn á það í fyrri ræðu minni að við framsóknarmenn höfum á liðnum árum lagt til um 500 milljóna framlag til lögreglunnar til að standa undir grunnþjónustu. Ef ég fer hratt yfir söguna í því kjördæmi sem ég kem frá, Suðurkjördæmi, frá Höfn og öll suðurlengjan, þá hefur til að mynda komið fram að á því eldfjallasvæði þar sem stöðug vá er vegna eldgoss er enginn löggæslumaður í Vík. Það væri áhugavert ef hæstv. innanríkisráðherra, sem kallað var eftir að væri í salnum, heyrði mál mitt. Hann hefur ítrekað lofað því að horfa jákvætt til þessa svæðis. Það sést ekki í þessu fjárlagafrumvarpi að hann hafi horft neitt sérstaklega jákvætt til þess því að ekki er tekið á þessum vanda þar. Þetta hefur líka komið fram, og ég nefndi það, hjá löggæslunni í Árnessýslu. Það sama á við um löggæsluna í Rangárvallasýslu og á Suðurnesjum, alls staðar á þetta við, um land allt, ekki síst á höfuðborgarsvæðinu. Þess vegna tel ég ákaflega mikilvægt að frumvarpið fari aftur til nefndar milli 2. og 3. umr. og þá verði tekið á þessu og í það minnsta settar um 300 milljónir sem menn telja að sé lágmark til þess að standa undir grunnþjónustu löggæslunnar.

Í þessu besta fjárlagafrumvarpi allra tíma, alla vega síðastliðinna fjögra ára, að mati ráðherra og stjórnarþingmanna, er heldur hvergi pláss fyrir grunnþjónustu á heilbrigðissviðinu. Það er líka hægt að fara yfir Suðurkjördæmi, þar sem ég þekki ágætlega til í kjördæmi mínu. Allt frá Suðurnesjum í vestri, allar heilbrigðisstofnanirnar, Heilbrigðisstofnun Suðurnesja, Suðurlands og Suðausturlands, alls staðar vantar fé. Niðurskurðurinn hefur gengið of langt og afleiðingin er, eins og fram hefur komið hjá fleiri þingmönnum, að það er farið að skera niður grunnþjónustu á þessum stöðum til að spara fjármuni sem eru smámunir miðað við þá fjármuni sem er síðan dælt út í forgangsröðun ríkisstjórnarinnar.

Ég nefndi það hérna í ræðu minni, án þess að ætla mér að etja saman ólíkum hópum, að það sló mig þegar ég fletti nefndaráliti meiri hlutans hversu margar tillögur eru þess eðlis að þær koma sem ákvarðanir ríkisstjórnarinnar eða eru samþykktar af ríkisstjórn, allflestar. Það gildir um hugmyndirnar í sambandi við framlög í listasjóðina, vísað er til fjárfestingaráætlunar og samþykkta ríkisstjórnarinnar, þannig að í sjálfu sér hefur meiri hlutinn gerst framlengdur armur ríkisstjórnarinnar. Þess vegna er auðvitað mikilvægt að ráðherrarnir séu til staðar.

Svo lauslega sé slegið á það sem ætlað er að setja til viðbótar við það sem var í fjárlagafrumvarpinu þá fá ýmsir sjóðir sem heyra undir listir um 220 milljónir. Til samanburðar fara 45–50 milljónir í íþróttamál. Allt eru þetta verulegir fjármunir. Ég hef ekki nefnt Kvikmyndasjóð sem á að fá aukreitis 470 milljónir sem fara til skapandi greina í fjárfestingaráætluninni. Það er til viðbótar við aukinn stuðning við nám í kvikmyndagerð upp á 50 milljónir sem ég tel hið besta mál. Ég vil alls ekki tala neikvætt um kvikmyndir eða Kvikmyndasjóð en ef ég þyrfti að velja, ef mér yrði stillt upp við vegg og ég þyrfti að forgangsraða og tryggja annaðhvort heilbrigðisþjónustu um land allt eða setja þessar 470 milljónir til Kvikmyndasjóðs og 220 í listir, við erum að tala hér um 700 milljónir, herra forseti, þá mundi ég setja 300 milljónir í löggæsluna, alveg klárlega, ef ég ætti þessa peninga og ætti að velja, og ég mundi setja annað eins í heilbrigðiskerfið, m.a. til þess að, eins og við höfum nefnt áður, að gera Landspítalanum kleift að fara í stofnanasamninga við hjúkrunarfræðinga því að við munum ekki reka hér heilbrigðiskerfi án þeirrar mikilvægu stéttar. En þetta er nú forgangsröðunin sem kemur fram í hinu svokallaða besta fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar.

Ég nefndi áhrifin af byggingarreglugerðinni í fyrri ræðu minni, og ætla ekki að ítreka það hér, en bara vísitöluhækkanir vegna hennar einnar á verðtryggð lán heimila gætu hækkað höfuðstólinn um 3–4% og byggingarkostnað um milli 10–20%, sem mun hafa þau áhrif að sá vaxtarsproti sem virtist vera að kvikna aftur í byggingargeiranum, þ.e. menn virðast vera tilbúnir að fara að byggja og nauðsynlegt er að fara að byggja, stöðvast í snarhendingu ef ekki verður brugðist við snarlega og þeirri byggingarreglugerð sem á að taka gildi núna 1. janúar 2013 frestað.

Það er víða hægt að bera hérna niður. Nokkrir þingmenn hafa bent á að ríkisstjórnin er stöðugt að stækka báknið og búa til fleiri störf, ekki síst á höfuðborgarsvæðinu. Til að mynda á að fjölga bæði störfum hjá Fiskistofu og í ráðuneytinu, minnir mig að það hafi frekar verið þar en hjá Hafrannsóknastofnun, vegna veiðigjaldanna sem verða um 70 milljónir. Það eru þó nokkur störf sem á að bæta við þar. Ég spurði hæstv. ráðherra út í möguleika á að flytja hluta starfa og hversu stór hluti Fiskistofu og Hafrannsóknastofnunar væri starfandi á höfuðborgarsvæðinu og hve stór hluti væri starfandi á landsbyggðinni þar sem um 80–90% af sjávarútveginum á heima. Það er sláandi hvað fá störf eru á vettvangi. Ég spurði hvort það væru einhver áform um flutning höfuðstöðva eða einhverra verkefna og það voru engin áform. Það er sláandi að ráða þurfi nýja starfsmenn með kostnaði upp á 70 milljónir til að innheimta veiðigjöld sem eiga síðan að vera undirstaðan fyrir þessari fjárfestingaráætlun. Ég gæti haft langa ræðu um hversu galið það er að setja veiðigjöldin með þeim hætti sem gert var í vor, hversu alvarlegar afleiðingar það hefur á þá atvinnugrein sem er hvað mikilvægust í samfélagi okkar og undirstaða þess að hér gangi vel.

Ég minntist á McKinsey-skýrsluna í fyrir ræðu minni og ég ætla aðeins að bera saman fjárfestingaráætlun ríkisstjórnarinnar, eins og hún kemur fyrir í frumvarpinu, og áherslurnar sem eru í áðurnefndri skýrslu McKinsey-ráðgjafarfyrirtækisins. Í fjárfestingaráætlun ríkisstjórnarinnar, sem er listuð upp í töflu í nefndaráliti 2. minni hluta fjárlaganefndar, kemur fram að þar sé um að ræða að minnsta kosti 5,6 milljarða kr. Þar eru fjölmörg gríðarlega stór verkefni. Ef við veltum því fyrir okkur hvað stóð í ráðgjafarskýrslunni umræddu þá var talað um að mikilvægt væri að menn fjárfestu í innviðum í þeim atvinnugreinum þar sem við stæðum okkur vel, þar sem væri vöxtur, þar sem væri mikil framleiðni, til að búa til tekjur, ekki síst útflutningstekjur, til að geta staðið undir velferðarkerfinu og skuldunum. Þar var aftur á móti bent á að gríðarlega stór þáttur samfélagsins væri atvinnugreinar í opinberri þjónustu og minni fyrirtæki á Íslandi, bæði í einkarekstri og opinberum rekstri, sem dekkuðu um 65–70% af mannaflanum þar sem væri allt of lítil framleiðni. Það er til að mynda meginpartur skapandi greina, þar hluti af ferðaþjónustunni undir vegna þess að þar er of lítil framleiðni og fleira í þeim dúr, þar er ekki síst verslunin sem er allt of dýr og í allt of stóru húsnæði með allt of mikinn mannafla og litla framleiðni. Inn í þennan geira á stærsti hlutinn af fjárfestingaráætlun ríkisins að fara, inn í þann geira sem skapar engin störf eða allt of fá störf, er með mjög litla framleiðni og skilar mjög litlum tekjum í þjóðarbúið. Í fjárfestingaráætlun ríkisins á mjög lítill hluti, herra forseti, að fara í atvinnugreinar sem skapa ný störf.

Maður gæti haldið fram að hluti af því sem nefnist í áætluninni græn skref og vistvæn innkaup ríkisstofnana upp á 150 milljónir mundi smátt og smátt skila okkur ávinningi. Þó er þessi tillaga aðallega, eins og stendur í útskýringum meiri hlutans, til að endurgreiða opinberum stofnunum allt að 20% af kostnaðarverði vöru og þjónustu og 15 millj. kr. renni til eflingar vistvænna innkaupa og 25 til þess að stuðla að því að Alþingi, ráðuneyti og stofnanir taki græn skref sem feli í sér markvert umhverfisstarf til að bæta nýtingu og draga úr sóun og öðrum neikvæðum áhrifum á umhverfið. Það er sem sagt ekki augljóst að þetta sé bein innspýting í þau fræði að hér séum við að búa til ný störf eða verðmæt störf sem skili okkur gjaldeyri, en hugsanlega er þetta jákvætt til langs tíma.

Grænkun íslenskra fyrirtækja upp á 280 milljónir er að einhverju leyti líklegri til að standa undir nýsköpun og atvinnusköpun sem væri jákvæð og auka framleiðni í störfum. Samkvæmt því sem hér segir verður þessu fjármagni varið til græna hagkerfisins vegna þingsályktunar sem var samþykkt á síðasta þingi og á að gilda á árunum 2013–2015. Þar voru 50 tillögur sem eiga að efla græna hagkerfið á Íslandi og hluti af þeim eru sannarlega verkefni sem munu fljótlega skila einhverri arðsemi og bæta hagkerfið.

Netríkið Ísland upp á 200 milljónir er líka hugmynd sem er hugsanlegt að gæti að einhverju leyti skilað ávinningi til lengri tíma litið, en þó á það fyrst og fremst að efla rafræna stjórnsýslu, þjónustu og lýðræði og felur einkum í sér stofnfjárfestingu í tölvukerfum í samstarfi stofnana ríkis og sveitarfélaga. Það má vera að framleiðni hjá þessum opinbera geira muni aukast og þess vegna sé þetta eitt af því jákvæða. Hér hef ég verið að telja jákvæðu hlutina sem eru upp á 700 milljónir eða þar um bil.

Ýmsir aðrir hlutir eru ólíklegir til þess að hafa bein áhrif á þennan stóra geira sem við þurfum sannarlega að virkja miklu betur og eru mjög líklegir til að auka einfaldlega áframhaldandi útgjöld ríkisins og opinberra stofnana og hafa þannig neikvæð áhrif á hagkerfið. Til að mynda 500 milljónir í sýningu fyrir Náttúruminjasafn Íslands eða 800 milljónir í byggingu húss íslenskra fræða. Auðvitað hefur það einhver áhrif meðan verið er að byggja húsið en síðan er kominn viðbótarrekstrarkostnaður. Við sem höfum starfað í sveitarstjórnum þekkjum það að þó að við getum hækkað liðinn íþróttamál með því að byggja sundlaug meðan á byggingunni stendur — og viðkomandi sveitarfélag er sagt hafa staðið sig býsna vel af því að það byggði sundlaug til íþróttamála því að það er flokkað þannig — þá er sá rekstur yfirleitt mjög neikvæður og stöðugt þarf að bæta í hann. Sundlaugarekstur stendur auðvitað ekki undir sér eins og við rekum hann hér á landi og eykur opinberan rekstur sem er neikvætt í því ljósi sem við höfum verið að ræða, að nauðsynlegt sé að horfa öðruvísi á frumvörp, ekki síst í svona kreppuástandi.

Það eru hins vegar nokkrir hlutir hérna sem við erum held ég öll sammála um að muni bæta ástandið, eins og kostnaður við að byggja nýja ferju, nýjan Herjólf eða nýja Vestmannaeyjaferju, og öryggisfangelsi á Hólmsheiði sem gæti leyst úr læðingi einhverja krafta, annars vegar í uppbyggingunni og hins vegar fyrir þá sem eru nú allir á einum stað við óviðunandi aðstæður, þ.e. það gæti létt á þeim störfum sem þar eru og biðlistinn eftir að sitja af sér refsingu, ekki síst vegna fjársvika, gæti hugsanlega skilað sér þarna inn jafnvel þannig að það kæmu fjármunir inn. Eitthvað af þessu má halda fram að sé nokkuð jákvætt.

En það eru fá dæmi, ef nokkur, eins og ég hef nefnt, sem hafa bein áhrif á það sem sett er upp í McKinsey-skýrslunni, enda hefði þurft að fara í fjárfestingar til að auka framleiðni, skera niður kostnað, minnka umsvif og setja síðan aukið fjármagn inn í geira eins og matvælaiðnað í sjávarútvegi, sem skilar miklu, og inn í orkugeirann, en það er eitur í beinum þessarar ríkisstjórnar og má ekki minnast á það. Meira að segja ferðaþjónustan sem átti að bjarga öllu í upphafi kjörtímabilsins, en nú finnst ríkisstjórninni nóg komið og vill koma í veg fyrir að fleiri ferðamenn komi sem hefði einmitt þau áhrif að nýtingin mundi aukast, framleiðnin mundi batna og greinin stæði þar af leiðandi betur en ella. Það er sláandi að fjárfestingaráætlun ríkisstjórnarinnar tekur ekkert mið af þeim ráðleggingum sem eru settar fram í áðurnefndri skýrslu.

Við framsóknarmenn höfum talað fyrir öðrum leiðum á undanförnum árum. Við höfum talað fyrir því að setja aukið fjármagn í löggæsluna, heilbrigðismálin, byggðamál og fleiri slíka þætti. Við höfum farið í velferðarmálin, í Fæðingarorlofssjóð, í námsmannahlutann, verið með viðbótarfjármunatillögur þar. Öllu þessu hefur verið hafnað og síðan sjáum við hvað gerist þegar allt er komið á síðasta damp og í óefni, þá kemur ríkisstjórnin og setur smápeninga inn, en forgangsröðunin er skýr, eins og ég fór yfir fyrr í þessari ræðu minni. Við höfum viljað fara þá leið að setja upp langtímafjárlög og aðskilja þá annars vegar þann rekstur sem nauðsynlegur er og hins vegar að horfa til fjárfestingarfjárlaga. Þar erum við að velta fyrir okkur fjárfestingum sem munu stækka skattstofnana og auka tekjur samfélagsins til að geta staðið undir velferðinni, en þær leiðir eru því miður hvergi sjáanlegar í þessu fjárlagafrumvarpi sem ríkisstjórnin kallar besta fjárlagafrumvarpið sitt.

Ég ætla að hafa það mín lokaorð, ég sé að tíma mínum er lokið, að ég tek undir lokaorð 2. minni hluta sem hvetur til breyttra vinnubragða við fjárlaga- og áætlunargerð ríkisins þar sem horft verði til lengri tíma í senn og að markmið og stefnumótun liggi fyrir í stað þessarar handahófskenndu gæluverkefnafjárfestingarstefnu sem virðist vera uppi og hefur skilið grunnþjónustu víða um land eftir í hálfgerðri rúst.