144. löggjafarþing — 46. fundur,  11. des. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[14:15]
Horfa

Vilhjálmur Bjarnason (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil spyrja hv. þingmann tveggja spurninga og geta þess strax í upphafi að ég dáist mjög að ofurtrú þingmannsins á markaðskerfið, að það sé hægt að stýra öllu með verði. Ég ætla líka að segja að ekkert tæki er eins vont til þess að stýra neyslu og ná fram jöfnuði og virðisaukaskattur. Í því frumvarpi sem hér er til umræðu er eitt merkilegt tæki til jöfnunar og það er að gera efnalitlu fólki kleift að kaupa heimilistæki með því að fella niður virðisaukaskatt til þess að það geti til dæmis keypt hollan mat og geymt hann við góðar aðstæður. Því vil ég spyrja hv. þingmann hvort ekki væri rétt að leita leiða til þess að bæta jöfnuðinn með áhrifamiklum tækjum en ekki nota til þess versta tæki sem til er í jöfnuði eins og virðisaukaskatt. Það hefur margoft komið fram að hvers kyns neyslustýring í sykri og fleiru hefur nákvæmlega engu skilað og það eru til önnur og betri tæki til þess. Varðandi bækur, menningu og því um líkt er til tæki til þess. Ég hef slegið því fram að til dæmis megi nota styrki til þýðinga, starfslaun rithöfunda og styrki til bókmenntahátíða. Ég tel þetta miklu áhrifameira til að örva bókaútgáfu og styrkja íslenska bókmenningu og þess háttar. Ég tel jafnframt að ójöfnuðurinn aukist jafnvel með lágum virðisaukaskatti á matvæli vegna þess að hinir efnameiri kaupa þá meiri mat og njóta meiri afsláttar af matvælum með lágum virðisaukaskatti.