144. löggjafarþing — 46. fundur,  11. des. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[14:18]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég sagði reyndar í byrjun ræðu minnar að ég teldi að við þyrftum að líta á ríkisfjármálin sem heild, annars vegar útgjaldahliðina og hins vegar tekjuöflunina, og að þessu öllu samanlögðu væri það mín niðurstaða að þetta væri til þess fallið að auka misskiptingu í samfélaginu. Það kann vel að vera rétt að skilvirkasta leiðin til að hjálpa tekjulágum heimilum sé ekki í gegnum virðisaukaskattskerfið. Það er hins vegar partur af heildarmyndinni sem við erum að búa til. ASÍ, BSRB og fleiri aðilar hafa sýnt fram á að tekjulág heimili verja hlutfallslega hærri hluta af ráðstöfunartekjum sínum í mat. Mér finnst að við eigum að hlusta á það og taka tillit til þess.

Varðandi það að fella niður vörugjöld af ýmiss konar heimilistækjum kom ég einnig inn á það í ræðu minni að þetta eru ísskápar, sjónvörp og annað sem maður er ekki að kaupa á hverjum degi heldur er hægt að kaupa það á mjög margra ára fresti og jafnvel notað. Við kaupum hins vegar ekki notaðan mat. Þess vegna er hægt að fresta þeim útgjöldum, fá gefins eða lánað og það lýtur allt öðrum lögmálum að mínu viti en matur (Forseti hringir.) því að við verðum að borða.