144. löggjafarþing — 46. fundur,  11. des. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[15:02]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hugmyndir manna um skattkerfið hafa verið að breytast mjög mikið og við erum pínulítið stödd á síðustu öld í umræðunni og hugmyndum okkar. Þegar ég segi þetta byggi ég það á því að ef við tökum sykurskattinn sem dæmi þá rísa menn hér upp á afturlappirnar yfir því að þetta sé neyslustýring þegar það sem um ræðir er í raun og sann það að ef ákvörðun einstaklings um að gera eitthvað hefur áhrif á þriðja aðila, eins og hvað varðar mengun frá fyrirtækjum eða annað slíkt, sé eðlilegt að menn greiði skatt fyrir það til að mæta þeim kostnaði sem ákvörðunin hefur í för með sér. Bæði hægra og vinstra megin hefur þetta verið eitthvað sem menn hafa talið skynsamlegt og sjá í auknum mæli að er skynsamlegt.

Við sjáum það líka í mengun, á kvótunum sem er sambærileg hugmyndafræði, mengunarkvótakerfi sem Evrópusambandið hefur komið sér upp. Það snýst í raun og veru um sambærilega hugmyndafræði, þ.e. að búnir séu til einhvers konar hagrænir hvatar til að draga úr þeim kostnaði fyrir samfélagið sem mengun hefur í för með sér, og í þessu tilfelli sykur. Þess vegna skil ég ekki með neinu móti, eins og ég fór yfir í ræðu minni, hvaða rök búa að baki þegar menn taka ákvörðun um að gera þetta. Mér er það algerlega óskiljanlegt. Ég skil ekki hvað þeir sem eru hægra megin við miðju í hinu hugmyndafræðilega litrófi hafa á móti þess háttar skattlagningu vegna þess að þetta snýst ekkert um forræðishyggju. Þetta snýst um að menn borgi með þegar þeir ákveða að kaupa sér vöru sem vitað er að muni hafa afleiðingar og kostnað í för með sér fyrir samfélagið.