144. löggjafarþing — 46. fundur,  11. des. 2014.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2015.

3. mál
[17:56]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég hefði getað rætt dálítið meira, en tími minn var á þrotum, um fyrirhugaða aðgerð varðandi umhverfisvænar bifreiðar. Það að hætta að gefa afslátt af vörugjöldum, a.m.k. upp að vissu marki, á umhverfisvænum bifreiðum og teygja sig svo í tekjur loftslagssjóðs auk þess hvernig ríkisstjórnin hefur umgengist tillögur um uppbyggingu á grænu hagkerfi í aðgerðum sínum lýsir mjög óhuggulegu viðhorfi til umhverfismála að mínu viti. Mér finnst ríkisstjórnin ekki hafa útskýrt þetta. Á fyrstu metrunum byrjaði hún á því að hafa sama mann í embætti umhverfisráðherra og landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra. Þá var strax sleginn augljós tónn. Mér finnst þetta frumvarp vera enn einn vitnisburðurinn um að þessi ríkisstjórn er á kolrangri leið í umhverfismálum og mjög varhugaverðri.

Svo er það þetta með tvær þjóðir í landinu. Ég tek undir að margt í öðrum frumvörpum ýtir undir að það eru að verða til tveir hópar í landinu. Það sem ég minntist á í þessu frumvarpi, hvernig ríkisstjórnin hefur umgengist starfsendurhæfingarsjóð og jöfnun á örorkubyrði almennra lífeyrissjóða, eru dæmi um það en þau eru falin. Ég held að fáir átti sig á því að fyrirhugaðar aðgerðir ríkisstjórnarinnar í þessum tveimur málum muni beinlínis leiða til tveggja hópa í landinu. Í tilviki starfsendurhæfingar, ef ríkið kemur ekki að því í samræmi við samninga sína þá nýtur einfaldlega hópur fólks ekki sambærilegrar starfsendurhæfingar og aðrir. (Forseti hringir.) Svo með hitt málið, þá fær hópur (Forseti hringir.) fólks minna úr lífeyrissjóðum en aðrir vegna þess að (Forseti hringir.) hann vann erfiðisvinnu.