144. löggjafarþing — 46. fundur,  11. des. 2014.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2015.

3. mál
[18:31]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Það er margt sem birtist um stefnu stjórnvalda í fjárlagafrumvarpinu og fylgifrumvörpum þess, eins og því sem við ræðum hér. Það sem mér finnst vera stefið í því öllu saman er í fyrsta lagi sá ófriður sem menn skapa allt í kringum sig, að mínu mati algerlega að óþörfu. Það kemur ágætlega fram í umsögnum ýmissa aðila. Hv. þm. Árni Páll Árnason fór vel yfir það í ræðu sinni áðan og einnig hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon hvaða breytingar er verið að gera, t.d. á starfsendurhæfingarsjóði og greiðslum í hann og hvernig breytingar varðandi jöfnun á örorkubyrði eru brot á samkomulagi við aðila á vinnumarkaði og ASÍ. Það er alveg merkilegt að ríkisstjórnin skuli halda því til streitu þegar eins mikill ófriður ríkir á vinnumarkaði og raun ber vitni. Þetta er ekki til þess fallið að skapa frið um þau skref sem þarf að stíga á komandi missirum. Það skiptir gríðarlega miklu máli fyrir okkur að á vinnumarkaði skapist friður. Þess vegna undrar þetta mig og það væri ágætt að heyra um það frá framsögumanni málsins hvers vegna menn halda þeim ófriði til streitu gagnvart vinnumarkaðnum og launafólki í landinu með þessum breytingum. Það er til dæmis með ólíkindum sem kemur fram í umsögn ASÍ, en á einum stað segir þar, með leyfi forseta:

„Alþýðusambandið gerir alvarlegar athugasemdir við að nú skuli stjórnvöld hins vegar ganga þvert á þetta samkomulag og þá samninga sem gerðir hafa verið á undanförnum árum og ákvarða einhliða að falla frá þríhliða samkomulagi um fjármögnun starfsendurhæfingar …“

Á öðrum stað eru svipaðar hlutir sagðir, með leyfi forseta:

„Alþýðusambandið mótmælir harðlega þeirri fyrirætlan stjórnvalda að rjúfa einhliða það samkomulag sem gert var við aðila vinnumarkaðarins og krefst þess að fallið verði frá þessari skerðingu.“

Þarna er verið að tala um skerðingu sem snýr að jöfnun á örorkubyrði. Umsögnin er að miklu leyti til svona. Þetta undrar mig dálítið og ég mundi vilja fá nánari skýringar á því hvernig stjórnvöld réttlæta það fyrir sér að fara með þessum hætti gegn samkomulögum sem gerð hafa verið við aðila á vinnumarkaði, sérstaklega í ljósi þess óróa sem þar hefur verið og er fyrirsjáanlegur á næstunni.

Það sem mér finnst í öðru lagi vera stefið í þessu frumvarpi og þeim sem við höfum rætt hér á undan er hversu víða er verið að auka álögur, ekki bara á fólk heldur fyrirtæki og það af ríkisstjórn sem talar iðulega digurbarkalega um lækkun skatta og lét oft síðustu ríkisstjórn heyra það, sem á afar erfiðum tímum þurfti að grípa til skattbreytinga, til lækkunar til að örva hagkerfið en líka til hækkunar þó aldrei hafi þær hækkanir verið íþyngjandi að neinu leyti fyrir þá sem þær þurftu að þola. Miðað við alla þá gagnrýni sem þá átti sér stað er býsna holur hljómur í því eftir á að hyggja miðað við það sem menn gera hér. Það er greinilega búið að taka ákvörðun um það að til að geta fjármagnað skuldaleiðréttingar, til að geta fjármagnað lækkun á veiðigjaldi, til að geta fjármagnað það að auðlegðarskattur falli niður, skuli auka álögur á fyrirtæki í landinu sem kannski flokkast undir að vera lítil og meðalstór. Það er ágætlega farið yfir það í nefndarálitum með þessum frumvörpum. Eitt af því sem nefnt er er t.d. átakið Allir vinna þar sem ráðist var í að afnema virðisaukaskatt vegna viðhalds og endurbóta og slíks á íbúðarhúsnæði og byggingarframkvæmda. Ég verð að segja að það kemur mér á óvart að menn ætli ekki að halda því verkefni áfram og ég er afar ósátt við það vegna þess að átakið hefur gefist gríðarlega vel og ég tel enn þá þörf á að því verði haldið áfram. Þetta hefur verið gagnrýnt mjög harðlega af aðilum vinnumarkaðarins og líka sveitarfélögunum enda tel ég eins og ég sagði áðan að þetta geti haft afar neikvæð áhrif.

Það sem er áhyggjuefni líka er umræðan sem hefur skapast um umhverfisvæna bíla. Hv. formaður nefndarinnar hefur sagt að þetta verði skoðað milli 2. og 3. umr. en það er alveg ljóst að ákveðnar skattaívilnanir rafbíla mæta mjög mikilli andstöðu innan stjórnarflokkanna. Það hefur verið ljóst í þó nokkurn tíma. Ég vona að hv. þm. Pétri H. Blöndal takist að koma þessu í gegnum meiri hluta nefndarinnar og við munum ekki liggja á liði okkar í því að styðja hann í því. En það vakna áhyggjur hjá mér við þá andstöðu sem við höfum orðið vör við gagnvart því að rafbílar fái undanþágur vegna þess að það þýðir að umhverfið sem snýr að orkuskiptum verður áfram í töluverðri óvissu og það er ekki gott. Við höfum séð hag fyrir þjóðina í því að orkuskiptin eigi sér stað, þau eru praktísk og jákvæð að svo mörgu leyti, ekki bara út frá umhverfinu heldur líka efnahagslega eins og hv. þm. Pétur H. Blöndal fór ágætlega yfir áðan. Það skiptir miklu máli að umhverfið í kringum orkuskiptin sé nokkuð ljóst og öruggt til ákveðins tíma.

Sjálf hef ég talað fyrir því og lagt fram þingmál þar um að upp að ákveðnum fjölda bifreiða, t.d. þangað til að 10% bílaflotans eru orðin græn eða eitthvað slíkt, verði skattumhverfið hagfellt þessum ökutækjum. Það gæti verið ein leið, vegna þess að þegar hlutfallið er orðið svo hátt má segja að það verði síður aftur snúið. Ég vonast til þess að við í þessum sal náum til lengri tíma samstöðu um að fara einhverja slíka leið vegna þess að ef okkur tekst að gera þetta vel mun það til lengri tíma litið verða mjög gott fyrir Ísland. En þá þýðir ekki fyrir okkur að vera að taka ákvarðanir nokkrum vikum fyrir gildistöku eða nokkrum vikum áður en undanþágur eða annað slíkt fellur úr gildi, það þýðir ekki að láta fólk vinna í slíku umhverfi að við séum alltaf að taka einhverjar „akút“ ákvarðanir eða ad hoc-ákvarðanir í þessum efnum heldur þarf að fylgja stefnumörkun sem er öllum ljós þannig að menn viti í hvaða umhverfi þeir vinna. Það er gríðarlegur áhugi á orkuskiptum og gríðarleg þekking úti í samfélaginu á þeim og við höfum allt til alls til að gera þetta. En þá skiptir lagaumhverfið máli og að það liggi ljóst fyrir hvernig það er og mun verða til lengri tíma.

Þá verð ég líka að nefna ferðaþjónustuna. Það er verulegt áfall fyrir bílaleigurnar að fá þessa breytingu á sig, lækkun afsláttar af vörugjöldum, með svona gríðarlega skömmum fyrirvara. Eins og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon kom inn á áðan var þetta gert til að tryggja að menn gætu endurnýjað bílaflotann reglulega vegna þess að það er öryggismál. Þetta er líka ímyndarspursmál fyrir landið og íslenska ferðaþjónustu. Þetta var gert til að styðja bílaleigurnar í því að endurnýja bíla sem oftast. Þetta verður högg fyrir bílaleigurnar og mér finnst illa að því staðið ef menn ætla að demba lækkuninni á með svona skömmum fyrirvara. Það sama á við um hækkun á virðisaukaskatti sem við ræddum í málinu á undan, fyrirvarinn er allt of skammur. Það er ekki hægt að bjóða mönnum upp á þannig starfsumhverfi að þeir fái upplýsingar um það með nokkurra vikna fyrirvara að þeir þurfi að gera breytingar til hækkunar á sínum gjöldum, sérstaklega í umhverfi þar sem verð eru gefin út með löngum fyrirvara. Meira að segja vonda vinstri stjórnin áttaði sig á því og gaf þess vegna langan aðlögunartíma að slíkum breytingum.

Virðulegi forseti. Þá vil ég koma inn á mál tengt ferðaþjónustunni og það er Framkvæmdasjóður ferðamannastaða. Mér er það algerlega óskiljanlegt, í fyrsta lagi það hvernig gistináttagjald varð að óttalegri mús í meðförum þingsins á síðasta kjörtímabili. Það átti að vera stærra, það átti að gefa meira í aðra hönd og fara óskipt til uppbygginga innviða ferðaþjónustunnar. Af þessu gjaldi sem er nú þegar of lágt ætla menn að klípa um 13 millj. kr. Þetta eru markaðar tekjur og til hvers? Til að setja 13 millj. kr. í hítina. Menn geta aldeilis notað 13 millj. kr. til að byggja upp innviði á ferðamannastöðum, 13 millj. kr. er há upphæð í því samhengi og getur skilað miklu á ákveðnum ferðamannastöðum þannig að það munar aldeilis um hana. Ég átta mig engan veginn á því hvert menn eru að stefna. Náttúrupassinn sem kynntur hefur verið hér og lagt hefur verið fram frumvarp um í þinginu er að mínu mati gríðarleg mistök. Hann hefur mætt mikilli andstöðu bæði innan greinarinnar og meðal hins almenna Íslendings. Það sem mér finnst vera að hugmyndinni um náttúrupassa er að þetta er gríðarlega óaðlaðandi kerfi að svo mörgu leyti. Hvernig ætla menn að fara að því að koma upp einhverju eftirliti með því hvort fólk sé með náttúrupassa eða ekki? Hvernig á að fylgja því eftir? Mér er það algerlega óskiljanlegt. Hvað á að segja við ferðamennina? Nú þarft þú að fara og taka aukaskref, fara inn á vefsíðu og kaupa þér passa. Svo skaltu vara þig á því að gleyma ekki að ganga með hann á þér vegna þess að eftirlitsmenn uppi á hálendi eða hvar sem þú ert munu fylgjast vel með því að þú gangir með hann á þér. Hvernig verður það þegar við Íslendingar ferðumst um landið og verðum svo óheppin að gleyma náttúrupassanum okkar heima? Þetta er auðvitað bara grín. Ég er mjög andsnúin þessari hugmynd. Enn einu sinni sýnir það sig að Sjálfstæðisflokkurinn sem talar alltaf um að minnka eftirlit, auka skilvirkni og lækka skatta — það er ekkert að marka það sem menn segja, ekki neitt. Hvað gera þeir svo á endanum? Þeir hækka skatta hér og þar og síðan ætla þeir meira að segja að búa til eftirlitskerfi með því hvort fólk á ferð um landið hafi keypt sér náttúrupassa. Þá á að búa til heilan eftirlitsiðnað með því. Mér finnst þetta sérkennilegur hugsunarháttur og hefði þá frekar viljað að menn hlustuðu á ferðaþjónustuna sem hefur sjálf lagt til að gistináttagjaldið, sem er undirstaða framkvæmdasjóðsins, verði frekar hækkað og gjaldið innheimt með þeim hætti. Menn verða að minnsta kosti að tryggja að flækjustigið og þetta óaðlaðandi eftirlit verði tekið út úr jöfnunni og fundin leið til gjaldtökunnar með þeim hætti að við sleppum við það tvennt. Ég skil heldur ekki ákvörðunina um framkvæmdasjóðinn, allir gera sér vel grein fyrir því að við þurfum að fara í mjög mikla uppbyggingu innviða á ferðamannastöðum en samt sem áður telja menn að ríkissjóður þurfi að taka 13 millj. kr. af mörkuðum tekjum inn í hítina, sem skefur enn frekar innan úr sjóði sem hefur nú þegar of lítið fé. Það er eins og hægri höndin viti ekki hvað sú vinstri gerir.

Virðulegi forseti. Næst vil ég nefna að það er enn og aftur verið að auka álögur á þá sem síst skyldi. Það varðar S-merktu lyfin sem á að fara að taka inn í greiðsluþátttökukerfið. Það segir beinlínis í nefndaráliti meiri hluta nefndarinnar að þetta sé gert sem hluti af aðhaldsaðgerðum ríkisstjórnarinnar. Það kann ekki góðri lukku að stýra ef menn taka ákvarðanir um það með aðhaldsaðgerðum að færa auknar álögur á þá sem veikastir eru í samfélaginu. Hvers vegna þurfa menn að ráðast í aðhaldsaðgerðir fyrir ríkissjóð? Jú, vegna þess að menn ákváðu að nota það fé sem til reiðu var í ríkissjóði til að flýta skuldalækkunaraðgerðum. Það tekur fjármuni frá öðrum verkefnum og það krefst þess greinilega að menn fari í aðhaldsaðgerðir. Það leiðir af sér að forgangsröðun ríkisstjórnarinnar er sú að í þeim aðhaldsaðgerðum skuli sækja fé til þeirra sem veikir eru og þurfa á lyfjum að halda. Þetta er forgangsröðun ríkisstjórnarinnar og henni mótmæli ég harðlega. Mér finnst hún röng og þetta bætist síðan ofan á hina auknu kostnaðarþátttöku sem orðið hefur í heilbrigðiskerfinu öllu og kannski ekki síst á þessu ári og verður á næsta ári. Þetta er að mínu mati röng nálgun en samt dálítið lýsandi fyrir það sem menn ákveða hér.

Þegar á heildina er litið varðandi frumvarpið á það sama við og ég sagði um frumvarpið sem við ræddum á undan, þetta stef að verið er að færa til skattlagningu, það er verið að færa til gjaldtöku, það er verið að færa til byrðar og þær eru færðar frá þeim sem hæstar hafa tekjurnar og til þeirra sem lægstar hafa tekjurnar. Þær eru færðar frá þeim sem standa hvað best í íslensku atvinnulífi eins og sjávarútveginum og yfir á lítil og meðalstór fyrirtæki. Það er rétt sem fram kom áðan hjá hv. þm. Árna Páli Árnasyni að það er með hreinum ólíkindum að menn skuli ekki taka stærri skref í því að lækka tryggingagjaldið. Við hefðum gjarnan viljað gera það og hefðum gert það ef við stæðum í þeim sporum nú að geta haft á það áhrif vegna þess að verið er að rjúfa friðinn sem verið hefur um tryggingagjaldið og hvað það eigi að fjármagna. Dregið hefur mikið úr atvinnuleysi, sem betur fer, frá því þegar það stóð í sem hæstum tölum 2010. Þess vegna þurfum við að stíga þessi skref og ég heyrði ekki betur í síðustu kosningabaráttu en að það hafi verið alger samstaða um það þvert á flokka. En það er ekki það sem ríkisstjórnin vill gera, það er augljóst. Það þarf kannski eitthvað að reyna að hjálpa henni við það og við munum ekki liggja á liði okkar ef til eru liðsmenn innan ríkisstjórnarinnar sem eru tilbúnir í þann leiðangur með okkur að forgangsraða upp á nýtt, breyta áherslunum í nálguninni allri saman, færa okkur aftur yfir í það að reyna að létta byrðunum af þeim sem lægstar hafa tekjurnar og létta líka byrðunum af litlu og meðalstóru fyrirtækjunum, ekki síst þeim sem byggja aðallega á mannauði og tryggingagjaldið íþyngir svo verulega eins og við þekkjum.