144. löggjafarþing — 46. fundur,  11. des. 2014.

Seðlabanki Íslands.

390. mál
[20:56]
Horfa

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Nú var það engu að síður niðurstaða haustsins 2008 og þetta var með því fyrsta sem var gert, ekki satt? Nánast samtímis neyðarlögunum og þeim atburðum öllum, ég man ekki nákvæmlega hvenær það var en ekki seinna en í nóvember, held ég, var Seðlabankinn endurfjármagnaður.

Ég hef alltaf verið mikill aðdáandi Noregs, sérstaklega þegar kemur að peningum því að þeim þykir vænt um þá og kunna vel með þá að fara. (ÖS: Þú vildir norsku krónuna.) Þeir eru oft nefndir við hliðina á Hollendingum í þeim efnum, að af evrópskum þjóðum þyki Norðmönnum og Hollendingum hvað vænst um peningana sína. Fyrir löngu lærði ég það að norski seðlabankinn var í nokkurri sérstöðu, lengi vel að minnsta kosti, á Norðurlöndunum fyrir þá sök hvað hann var sterkur. Norðmenn völdu að hafa hann mjög sterkan og litu á það sem hluta af því að geta staðið öflugan vörð um norsku krónuna. Hvað gerðist í þrengingum Norðurlandanna á tíunda áratugnum þegar Svíar og Danir og svo Finnar lentu heldur betur í því? Norska krónan og norski seðlabankinn var sá eini sem stóð nokkurn veginn af sér það áhlaup. (Gripið fram í.) Þá hefur eitthvað breyst í þeim efnum því að hann þótti mjög góður á þessum tíma.

Út af fyrir sig tek ég alveg undir það. Það er að sjálfsögðu rétt að fara yfir það hvað ríkið á að vera að borga háa vexti vegna skuldabréfs sem það gaf út til að fjármagna seðlabankann og mynda honum eigið fé. Það er ekki ástæða til þess að það sé meira en menn telja ásættanlegt. Það er alveg rétt. Þess vegna er ég ekkert andvígur því að þessi eiginfjársamskipti séu skoðuð og í raun og veru mætti líka vel velta fyrir sér að skoða vaxtaviðskipti ríkissjóðs og Seðlabankans og sérstaklega vegna gjaldeyrislánanna og spegla þann kostnað einhvern veginn öðruvísi en gert var a.m.k. fyrst og framan af.

Seðlabankar geta búið til peninga. Já, það geta þeir, en aðalatriðið er þó að alltaf komum við, held ég, (Forseti hringir.) á sama stað í allri þessari umræðu þegar upp er staðið. Aðalatriðið er að seðlabankar (Forseti hringir.) séu framgangsríkir og þeim takist vel til í (Forseti hringir.) meginhlutverki sínu.