144. löggjafarþing — 46. fundur,  11. des. 2014.

Seðlabanki Íslands.

390. mál
[21:05]
Horfa

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég leyfði mér auðvitað að nefna hlutverk Seðlabankans í sambandi við gjaldeyrishöftin og afnám þeirra í þessu samhengi. Ég gerði það meðal annars vegna þess að ég hef velt því fyrir mér hvernig þetta líti út utan frá séð, hvort engum þyki skrýtið að við séum að lækka eigið fé Seðlabankans. Jú, þeir sem eru innvígðir í þennan heim geta í sjálfu sér alveg flutt ræðuna sem hv. formaður efnahags- og viðskiptanefndar gerði hérna áðan, sem leiðir mann næstum því að þeirri niðurstöðu að það skipti engu máli hvort Seðlabanki sé múraður af eigin fé eða í bullandi mínus því að hann geti alltaf ráðið við þær aðstæður. Það er út af fyrir sig rétt að svo miklu leyti sem það snýst um innlenda mynt. En staða Seðlabankans er allt önnur þegar kemur að gjaldeyrisforðanum og reikningunum þar, þá er auðvitað mjög gott að Seðlabankinn sé sterkur. Það væri til dæmis best fyrir Ísland að Seðlabankinn væri níðsterkur og ætti stærstan hluta eigin fjárins í skuldlausum gjaldeyrisvaraforða. Það er alveg augljóst mál. Það skilja allir hvers vegna. Út af fyrir sig eru þess vegna gjaldeyriskaup Seðlabankans í ár (ÖS: Með hverju borgar hann fyrir gjaldeyri?) mjög ánægjuleg. Hann þarf að hafa afkomu til þess að sjálfsögðu og þjóðarbúið þarf að framleiða þann gjaldeyri til þess að forðinn geti orðið skuldsettur. En það er best, þannig vildum við helst hafa það. Og, ég endurtek það, kaupin í sumar eða í ár hafa verið mjög jákvæð. Það þýðir að vísu ekki að það sé núna 90 milljarða óskuldsettur forði í bankanum, því miður, vegna þess að frá þessu dragast vaxtagreiðslur og fleira. En kannski um helmingur af því gæti núna verið í raunverulegum óskuldsettum forða um áramótin og það er fyrsti óskuldsetti forðinn sem Ísland á frá því fyrir hrun sem eitthvað munar um. Það er þannig. Þeim mun sterkari sem þessi til dæmis hluti efnahagsreiknings Seðlabankans væri þeim mun trúverðugri eru aðgerðirnar í afnámi gjaldeyrishaftanna, það er alveg ljóst.