145. löggjafarþing — 46. fundur,  3. des. 2015.

þjóðaratkvæðagreiðsla um nýja stjórnarskrá.

[10:52]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég ætla að byrja á að svara seinni spurningunni. Það segir sig í rauninni sjálft að verði til frumvarp úr þessari vinnu mun almenningur geta sagt álit sitt á því þegar það verður til meðferðar í þinginu. Tækifæri munu gefast til að ræða það í þaula á Alþingi og möguleikar á að senda inn athugasemdir og ábendingar til þingsins.

Hvað varðar spurninguna um þjóðaratkvæðagreiðsluna var ég í rauninni bara að taka undir með hv. þingmanni, og maður hefur heyrt fleiri hv. þingmenn lýsa sömu skoðun, að það væri orðið ólíklegt að (BirgJ: Það er þér að þakka.) það tækist að klára þessa vinnu fyrir forsetakosningar þannig að hægt yrði að greiða um breytingarnar atkvæði samhliða forsetakosningum. (Gripið fram í.) Ég benti jafnframt á að það væri svo sem ekkert alslæmt þó að menn héldu um málið sérstaka þjóðaratkvæðagreiðslu. Þegar til þess kemur verða að sjálfsögðu gerðar ráðstafanir til þess að gera okkur það kleift.