146. löggjafarþing — 46. fundur,  22. mars 2017.

störf þingsins.

[15:22]
Horfa

Brynjar Níelsson (S):

Hæstv. forseti. Ég held að ég sé fyrsti maðurinn sem er ekki í Norðausturkjördæmi hér uppi. En ég vil grípa boltann frá hv. þm. Þórunni Egilsdóttur. Ég hef sjálfur talsverðar áhyggjur af viðbrögðum margra, ekki síst stjórnmálamanna, við þessum fregnum um sölu á 30% hlut í Arion banka.

Ég skil að við höfum áhyggjur af eignarhaldi. Ég vil fá upplýsingar. En við verðum samt að passa okkur á að fara ekki í óyfirvegaða umræðu því að hún getur verið skaðleg fyrir okkur öll. Hér er um að ræða fjármálafyrirtæki sem þarf á trúverðugleika að halda. Við erum með kerfi, við erum með eftirlitsstofnun, FME, sem hefur eftirlit með þessu, sér um framkvæmd laganna. Það er mikilvægt að við förum ekki fram úr okkur í þessari umræðu vegna þess að ef við sköðum fjármálafyrirtæki af þessari stærð (Gripið fram í.)— sumir hvetja jafnvel til áhlaups á slíka banka — erum við að skaða okkur sjálf og skaða íslenskt fjármálafyrirtæki.

Við þurfum þess vegna að fara varlega.

Ég legg því til að umræðan um þetta verði yfirveguð og að við förum mjög varlega í allar yfirlýsingar því að það sem við segjum getur haft mikil áhrif á hvernig aðrir hegða sér. Ég vil ekki sjá að við hvetjum manna mest til þess að hér verði ófremdarástand í kringum þetta. Leyfum þeim sem hafa eftirlitið, þeim sem framkvæma lögin, að sinna starfi sínu, og tökum svo umræðuna.