146. löggjafarþing — 46. fundur,  22. mars 2017.

tekjustofnar sveitarfélaga.

306. mál
[16:27]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir hans framsögu. Ég vil líta svo á að það frumvarp sem hér er verið að leggja til tengist húsnæðismálum og þeim aðgerðum sem farið var í á síðasta kjörtímabili varðandi þau; hér er lögð til ákveðin skipting á fjármunum til sveitarfélaga vegna þess.

Ég vil bera fram spurningar sem ég vonast til að nefndin hugi að þegar hún tekur málið til vinnslu:

Kæmi til greina að tengja þau framlög sem hér er verið að greiða út til sveitarfélaganna því að sveitarfélög geri húsnæðisáætlanir? Er hægt að tengja þau því að sveitarfélög tryggi betra framboð af lóðum?

Ég vil nota tækifærið og spyrja ráðherrann þriðju spurningarinnar en hún varðar gjaldtöku vegna lóða hjá sveitarfélögum: Í yfirlýsingu sem gerð var í tengslum við kjarasamninga var talað um aukið framboð húsnæðis og lækkun byggingarkostnaðar og nefnt að af hálfu hins opinbera verði á allan hátt greitt fyrir því að hægt verði að taka upp sem hagkvæmastar aðferðir við íbúðabyggingar í því skyni að lækka byggingarkostnað. Þar á meðal var innanríkisráðuneytinu falið að fara yfir gjaldtöku sveitarfélaga vegna lóða- og gatnagerðargjalda með það fyrir augum að lækka byggingarkostnað.

Ég hefði áhuga á að heyra frá ráðherranum hvernig hann hyggst gera þetta og tryggja að annars vegar verði gerðar húsnæðisáætlanir til að tryggja nægilegt framboð á húsnæði, að gerðar verði áætlanir til að tryggja nægilegt framboð af lóðum og lækka kostnaðinn og það verði jákvæðir hvatar fyrir sveitarfélögin að gera það.