146. löggjafarþing — 46. fundur,  22. mars 2017.

tekjustofnar sveitarfélaga.

306. mál
[16:53]
Horfa

Teitur Björn Einarsson (S):

Herra forseti. Við ræðum frumvarp um breytingu á lögum um tekjustofna sveitarfélaga. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. ráðherra fyrir framsögu hans og reifun á þessu máli sem kemur líka fram í greinargerð frumvarpsins. Það er svo sem ekki mín ætlun að bæta mikið við þá umfjöllun alla, en það hefur komið fram að þetta mál mun fara til hv. umhverfis- og samgöngunefndar. Ég tel alveg ljóst að nefndinni er nokkur vandi á höndum því um þetta mál er töluverður ágreiningur, hefur verið ágreiningur og það má skilja sem svo að hann sé áfram uppi í þessu máli.

Þetta er í fyrsta lagi ágreiningur um efni málsins og að einhverju leyti líka ágreiningur um formið, þ.e. hvaða leið er farin til þess að mæta þeim sjónarmiðum um að vegna laga um séreignarsparnað og ávöxtun á honum til greiðslu húsnæðislána er ráðstafað úr jöfnunarsjóði til sveitarfélaga sem urðu af tekjutapi ef svo má segja, herra forseti, vegna útsvarsteknanna. Það eru líka uppi sjónarmið um grundvallaratriði, meginreglur sem gilda um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga og hvernig eigi að ráðstafa fé úr honum til jöfnunar á ýmissi starfsemi sveitarfélaga sem þar er að finna. Það er ekki einfalt að samræma eða samþætta þessi tvö ólíku sjónarmið.

Það má líka taka undir þann ágreining sem hefur verið um í hvaða form þetta mál er sett og velta því fyrir sér hvort, ef bæta þarf sveitarfélögum tap útsvars vegna þessara ráðstafana, sé rétta eða heppilegasta leiðin að breyta lögum um jöfnunarsjóð. Ég leyfi mér að benda á í þessu sambandi að í 11. gr. laga um opinber fjármál, nr. 123/2015, er sérstakt ákvæði um það hvernig ríki og sveitarfélög eiga að haga samskiptum sínum og samráði sín á milli um opinber málefni. Það kann vel að vera að í upphafi þessa máls hefði verið heppilegra að ríki og sveitarfélög hefðu komist að samkomulagi áður en gengið var í allar þessar lagabreytingar sem hér eru undir, í fyrsta lagi eru það lög um sérstakan skatt á fjármálafyrirtæki og svo lög um ráðstöfun á séreignarsparnaði.

Við þekkjum líka dæmi þess að ríki og sveitarfélög geta, þegar sérstök mál eru undir, komist að samkomulagi um afgreiðslu tiltekinna mála, um fjárhagsleg samskipti sín á milli, og staðfest það með samningi ef svo ber undir og lögum ef þess þarf. Nýjasta dæmið um það er að sjálfsögðu mjög sérstakar aðstæður sem sköpuðust þegar lífeyrissjóðaskuldbindingar sveitarfélaga í tengslum við breytingar á jöfnun lífeyrisréttinda og hvernig ríki og sveitarfélög höguðu þeim samskiptum nýverið, fyrir áramót.

Það sem ég vildi nefna hér og taka undir með hæstv. ráðherra er að verkefnið núna er að kanna í hv. umhverfis- og samgöngunefnd hvaða flötur er á því að einhver sátt eða samkomulag geti verið um þetta mál. Eins og hæstv. ráðherra segir: Þingið þarf að glíma við þetta. Það held ég að muni reynast erfitt. Sama frumvarp að efni til hefur verið þrætuepli á tveimur þingum hér áður. Ég tel sjálfsagt að nefndin gefi sér tíma í það að kalla eftir athugasemdum, kalla eftir þeim sjónarmiðum sem eru uppi og leita leiða í samstarfi við hæstv. ráðherra til þess að finna flöt á því að ná samkomulagi eða lausn sem allir aðilar geta sætt sig við, lausn sem tryggir það að grundvallaratriði laga um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga verði í heiðri höfð og ekki verði gengið á þau meginatriði sem þar koma fram og svo hins vegar að það megi að einhverju leyti taka undir sjónarmið þeirra sveitarfélaga sem hafa orðið fyrir skerðingu á útsvari vegna þessara sérstöku ráðstafana ríkisins. Ég hef fulla trú á því að vinni menn af einurð að því þá sé það mögulegt.