148. löggjafarþing — 46. fundur,  10. apr. 2018.

heilbrigðisþjónusta o.fl.

426. mál
[16:22]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ekki er gert ráð fyrir því að af þessari breytingu á fyrirkomulagi hljótist verulegur kostnaðarauki. Það er nokkuð sem verður að koma í ljós. En hins vegar er það rétt sem hv. þingmaður bendir á að það kann að verða þannig að eðli máls samkvæmt muni þrengjast um aðra sem bíða eftir hjúkrunarrýmum o.s.frv. En samhliða gerum við ráð fyrir verulegri fjölgun hjúkrunarrýma í fjármálaáætluninni núna, sem betur fer eins og fram hefur komið í framlagðri fjármálaáætlun. Mér reiknast til að við séum í áætluninni að fjölga um 300 frá því sem áður var, þ.e. gert var ráð fyrir 250 nýjum rýmum á fimm ára tímabili, en þar bætum við við 300, þannig að rýmin verða 550 á fimm ára tímabili. Væntanlega verður eftirspurninni þá svarað hraðar en er í dag, enda er það markmiðið með því átaki.