148. löggjafarþing — 46. fundur,  10. apr. 2018.

heilbrigðisþjónusta o.fl.

426. mál
[16:23]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V) (andsvar):

Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Það er gott að vita að verið sé að vinna þetta í samfellu af því að mikil stefnumótun hefur átt sér stað lengi í málefnum aldraðra og hefur skort á að hún hafi skilað sér inn í langtímaáætlun. Það er því gott ef þetta fer saman núna.

Við vitum öll að geðheilsa og andleg vellíðan fólks, ekki síst aldraðra, spilar oft inn í líkamlega heilsu og ástand þannig að það skiptir líka máli þar. Þar hefur óneitanlega verið ákveðið áhyggjuefni sú gagnrýni sem heyrst hefur frá Hugaraflsteyminu góða, sem er nú heimilisgestur hjá flestu fólki í gegnum fjölmiðla þessa dagana. Fram kemur á heimasíðu velferðarráðuneytisins að nú er ákveðin sókn í gangi, þannig mögulega er einhverjum spurningum svarað þar ef að er gáð.

Mig langar til að velta því upp hvort hæstv. ráðherra hafi einhverja sýn á hversu mikið átak í þessum málum, langþráð og skýr sýn, þurfi til að draga úr (Forseti hringir.) þörf á þessum rýmum, hvernig aukin geðheilbrigðisþjónusta og þörf þessa hóps fyrir rými spila saman.