148. löggjafarþing — 46. fundur,  10. apr. 2018.

heilbrigðisþjónusta o.fl.

426. mál
[16:35]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég átta mig ekki alveg á hvert hæstv. ráðherra er að fara, vegna þess að hér er hún með frumvarp sem lækkar aldur á ákveðnum hópi þegna landsins sem þurfa að sækja ákveðna þjónustu. Verið er að lækka viðmiðunaraldurinn hjá þeim sem mega sækja þjónustuna, úr 67 árum, og í rauninni metið hverjir þurfa að fá þessa þjónustu. Þar af leiðandi hljóta fleiri að eiga rétt á þjónustunni, fleiri sem sækjast eftir þjónustu. Ef ekki á að fjölga rýmunum eða fjölga bæta úr umfangi þeirrar starfsemi sem er til staðar í dag, þ.e. fleiri geti sótt sér starfsemina eða sótt sér þjónustuna — ef maður er með 20 pláss t.d. í dagrýmum á einhverju heimili, einhverri heilbrigðisstofnun úti á landi eða í Reykjavík, 20 pláss í dag, og það eru 22 sem vilja koma, tveir eru á biðlista, svo bætir maður allt í einu við 20, þá eru 22 komnir á biðlistann í staðinn fyrir að vera tveir á biðlista, á bara að hafa þá áfram á biðlistanum eða á að auka þjónustuna til að fleiri komist að? Um það er verið að spyrja.

Ríkisvaldið og ráðherra ætlar greinilega ekki að koma með aukna fjármuni inn í þjónustuna. Ég er ekki að tala um hjúkrunarrými, ég er að tala um það sem stendur í frumvarpinu; dagdvöl, dagvistun eða hvað við köllum það. Um það snýst málið. Ráðherra þarf ekki að vera með útúrsnúninga hér og tala um hjúkrunarrými í því tilviki, bara svara spurningunni: Eiga að fylgja fjármunir þannig að unnt sé að fjölga þeim rýmum eða plássum eða hvað við köllum það, fyrir þá sem munu bætast á biðlistann?