148. löggjafarþing — 46. fundur,  10. apr. 2018.

heilbrigðisþjónusta o.fl.

426. mál
[16:40]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka spurninguna. Ég var líka sveitarstjórnarmaður til nokkuð margra ára og þekki þetta frá þeirri hlið þar sem sveitarfélagið sem ég bjó í, og ég bý reyndar enn þá, og var í sveitarstjórn sem rak þá þjónustu sem um er rætt í samstarfi við heilbrigðisstofnunina á staðnum. Ég veit þar af leiðandi að það er mikil eftirspurn eftir þessu. Auðvitað er það þannig að þegar viðskiptavinahópurinn er stækkaður þá eykst eftirspurnin eftir úrræðinu um það sem því munar. Þetta er gallinn, einn af mörgum göllum við það sem við gerum hér á Alþingi og kannski sér í lagi þegar ráðherrar koma fram með mál eins og þetta, sem í sjálfu sér er gott mál, það er gott mál að breyta þessum lögum í þá veru sem hér er um að ræða, að það fylgir engin lausn með hvernig eigi að hleypa öllu þessu fólki inn í þetta úrræði sem er svo nauðsynlegt.

Auðvitað munu einhverjir sem þurfa nauðsynlega á því að halda komast fram fyrir hina af því að það er búið að breyta aldrinum. Við vitum alveg hvernig það er, en það er ekkert verið að fjölga úrræðunum, þannig að í raun er ekki verið að leysa eftirspurnarvandann sem er til staðar og verður til staðar. Það finnst mér vont. Auðvitað eykst þrýstingurinn á sveitarfélögin eða þá sem reka þessa þjónustu, heilbrigðisstofnanir í samráði við eða samstarfi við sveitarfélögin. Þrýstingurinn á það að komast inn eykst þegar biðlistinn lengist, að sjálfsögðu. Munu sveitarfélögin geta sett aukna fjármuni í þetta? Munu þau hugsanlega þurfa að hækka gjöldin til að koma fleirum að eða slíkt? Það er eitthvað sem við getum ekki svarað hér og augljóslega ætlar ráðherrann ekki að svara því.