148. löggjafarþing — 46. fundur,  10. apr. 2018.

heilbrigðisþjónusta o.fl.

426. mál
[16:41]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka andsvarið. Ég tek undir það sem hefur komið fram hér og ítreka eiginlega það sem ég sagði áðan að þetta er gott mál, en það þarf bara að gera það þannig úr garði að það komi ekki niður á einhverjum öðrum. Ég held að við getum öll verið nokkuð sammála um það að þeir sem eldri eru en 67 ára og eru nú þegar á biðlista eiga erindi inn á slík heimili og í slíka þjónustu. Það leysir ekki neinn vanda að lengja þann tíma enn frekar fyrir þá sem eru þegar á þessum lista. Ég held og vona að hv. þingmaður sé mér sammála, hann situr reyndar ekki í velferðarnefnd, að nefndin taki þetta vel til athugunar og láti það annars vegar fara saman að þeim kostnaði sem til fellur sé mætt í rauntíma eins og hægt er og hins vegar að nefndin fái fulltrúa sveitarfélaga á sinn fund til að komast að raun um hvernig best verði haldið áfram með málið.