148. löggjafarþing — 46. fundur,  10. apr. 2018.

dómstólar o.fl.

442. mál
[17:37]
Horfa

Olga Margrét Cilia (P):

Virðulegi forseti. Ég fagna því vissulega að það eigi að setja á fót sérdómstól sem skeri úr um hvort heimila skuli endurupptöku dómsmála. Í frumvarpinu er talað um að einn af þeim dómurum sem þar sitja eigi að skipa úr röðum Hæstaréttar, annan úr Landsrétti og þann þriðja úr hópi héraðsdómstóla. Gert er ráð fyrir að tilnefnd séu bæði karl og kona úr þessum röðum en, með leyfi forseta, „heimilt er að víkja frá því þegar hlutlægar ástæður leiða til þess að það er ekki mögulegt. Skal tilnefningaraðili þá skýra ástæður þess.“

Ég vil nýta tækifærið og benda á þann kynjahalla sem ríkir í íslenska dómskerfinu. Í Hæstarétti sitja ein kona og sjö karlar. Af þeim 35 dómurum sem eru skipaðir í héraði eru 14 konur. Vissulega er jafnara hlutfall í Landsrétti en sú skipan var ekki óumdeild. Því má velta upp hvort til Endurupptökudómstóls muni koma mörg kynferðisofbeldismál þar sem sönnunarfærsla í þeim málum reynist oft örðug. Þess vegna velti ég fyrir mér hvort þessi dómstóll sé enn ein viðbótin í það karlaveldi og sérhagsmunagæslu sem ríkir innan dómstólakerfisins á Íslandi. Dómarar eiga að vera hlutlausir í störfum sínum en það þarf að taka kerfið í heild til endurskoðunar.

Því miður er staða kvenna innan dómskerfisins á Íslandi ekki björt, sama með hvaða augum litið er, hvort heldur það er fyrir konur sem eru að útskrifast úr laganámi og hyggja á starfsframa innan dómskerfisins eða þá brotaþola sem munu æskja endurupptöku mála sinna er lúta að kynferðisofbeldi.