148. löggjafarþing — 46. fundur,  10. apr. 2018.

dómstólar o.fl.

442. mál
[17:49]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V):

Frú forseti. Það er eiginlega synd að hæstv. ráðherra sé ekki í salnum þar sem ég ætlaði að fá að eiga smáorðastað við hana um tiltekin atriði. Er vitað hvort ráðherra er í húsi? Ég held að ég hafi séð hana frammi.

Ég get svo sem hafið þessa ræðu sem verður ekki löng. Ég vil byrja á að taka það fram að ég held að það sé mjög þarft mál að skipa í dómstól af þessu tagi til að sinna þeim verkefnum sem kveðið er á um í frumvarpinu. Ég verð að viðurkenna að mér hefur ekki gefist tóm til að fara rækilega yfir það en ég reikna með að það sé vandað. Ég treysti því.

Það sem mig langaði til að ræða sérstaklega í framhaldi af allri þeirri umræðu sem varð um skipan dómara í Landsrétt er aðferðin við skipan dómaranna — ég sé að ráðherra er komin og þakka henni kærlega fyrir því að mig langaði til að — ég fæ bara að endurtaka: Ég fagna þessu frumvarpi og held að það sé ákaflega mikilvægt en ég er að velta fyrir mér ákvæðinu um skipan dómaranna. Ef ég skil þetta rétt eru þarna þrír tilteknir dómstólar sem tilnefna aðila til að taka sæti í dómnum og hafa það karl og konu. Síðan er gert ráð fyrir að staða fjórða dómarans sé auglýst og dómnefnd fari yfir umsóknir og velji.

Ef ég skil þetta rétt munu koma á borð hæstv. dómsmálaráðherra átta tilnefningar, þar með þeir sem sóttu um, og ef svona ákvæði gengur upp verða væntanlega fjórir karlar og fjórar konur komin á borð hæstv. dómsmálaráðherra.

Þá velti ég fyrir mér fyrst tilnefningaraðilum er gert að tilnefna karl og konu og gera í sjálfu sér ekki upp á milli þeirra — að vísu eru undantekningar frá því ef það er greinilega mikill munur á hæfi, ef ég skil það líka rétt — í ljósi umræðu, eins og ég sagði um fyrri skipanir í dómstóla, hvort það komi til álita að þessu sinni að breyta þessu ákvæði einhvern veginn með þeim hætti að dómsmálaráðherra skuli taka tillit til kynjasjónarmiða þegar hann skipar í dóminn. Að þessu sinni ætti það að vera útlátalítið vegna þess að þá eru fjórir karlar og fjórar konur hæf að mati tilnefningaraðila, og þá dómnefndar, til að taka sæti í dómnum. Mönnum ætti að vera í lófa lagið að ganga þannig til verks að dómsmálaráðherra væri gert skylt eða í það minnsta væru mjög sterk tilmæli í lögunum að hann gæti kynjasjónarmiða þegar hann velur úr þessum hópi.

Erindi mitt við hæstv. dómsmálaráðherra þegar ég er að velta þessu fyrir mér er eiginlega hvort þarna væri hægt að finna lausn sem fæli það í sér að við erum í senn að tala um að þarna er fólk sem tvímælalaust er hæft, bæði að mati dómstólanna sem tilnefna og dómnefndar sem skilar áliti til ráðherra, hvort það sé íþyngjandi fyrir dómsmálaráðherra — ég veit ekki hvaða önnur sjónarmið hann ætti að hafa við það að setja saman dóminn. Þetta er eiginlega erindi mitt á þessu stigi máls um þennan nýja dómstól sem ég ítreka að ég tel að sé nauðsynlegur. Ég held að það væri mjög gott ef við gætum nálgast skipan dómaranna með hliðsjón af þeim sjónarmiðum sem ég nefni hér. Ég held að það yrði til þess að betri sátt ríkti um skipan dómsins og gerð laganna. Það væri vel þegið ef hæstv. ráðherra gæti hugsað sér að bregðast við en ég ætla ekki að hafa mál mitt lengra að þessu sinni.