150. löggjafarþing — 46. fundur,  16. des. 2019.

almennar íbúðir.

320. mál
[12:46]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Höllu Signýju Kristjánsdóttur kærlega fyrir framsöguna. Ég hjó eftir því að hv. þingmaður talaði um að hún væri sátt við það hvernig nefndinni hefði tekist að bregðast við umsögnum og hitta þá sem máli skipta. Ég verð satt best að segja að viðurkenna að það undrar mig mjög vegna þess að það sem liggur helst til grundvallar þeirri gagnrýni sem ég og aðrir þeir hv. þingmenn sem eru á minnihlutaálitinu komum fram með er nákvæmlega það að ekki gafst tími til þess. Mig langar þess vegna í fyrri umferð að spyrja hvort hv. þingmaður sé sáttur við afdrif mála gagnvart aðila á borð við Reykjavíkurborg sem er risinn í umsýslu félagslegra íbúða og ber þar mikla ábyrgð. Að mínu mati ber ríkisvaldið jafnframt ábyrgð á því að það samstarf sé gott og að unnið sé sameiginlega að málum sem varða félagslegar íbúðir.

Félagsbústaðir eru annar aðili. Þessir aðilar sendu vissulega seint inn umsögn en ég bendi á að af 14 umsögnum sem komu inn komu sjö, helmingur, eftir að tilskilinn frestur var útrunninn sem áréttar kannski enn frekar gagnrýni okkar í minni hlutanum á að þessi vinnubrögð séu ekki í lagi. Þetta er of skammur tími, að ekki sé talað um í máli sem var tilbúið frá samráðsgáttinni í vor.

Þóttu umsagnir þessara aðila það léttvægar í augum meiri hlutans að menn geti staðið hér og sagst sáttir við meðferð nefndarinnar á þessu máli þegar fyrir liggur að meiri hlutinn taldi ekki tíma eða ástæðu til að fá þessa aðila til fundar við nefndina til að hægt væri að ræða þau mál sem koma upp í umsögn þeirra og gagnrýni á þennan málaflokk? Var flýtirinn virkilega svo mikill? Sérstaklega furða ég mig á þeirri skoðun hv. þingmanns áðan sem lýsti beinlínis ánægju sinni með framganginn.