150. löggjafarþing — 46. fundur,  16. des. 2019.

úrvinnsla eigna og skulda ÍL-sjóðs vegna uppsafnaðs vanda Íbúðalánasjóðs.

381. mál
[13:23]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Við erum að ræða um frumvarp til laga um úrvinnslu eigna og skulda ÍL-sjóðs vegna uppsafnaðs vanda Íbúðalánasjóðs. Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort það sé vitað hversu mikið tap verður á þessu safni út af vaxtamun. Það er búið að greiða rosalega mikið upp af lánum Íbúðalánasjóðs, ég gerði það t.d. sjálfur. Vaxtamunurinn er alveg gígantískur. Þetta er rosalega mikið tap og það er talað um að 200 milljarðar fari niður í 140 eða ég veit ekki. Er reiknað með að tapið haldi áfram og þá hversu mikið? Er nokkurn veginn áætlað hvað ríkisstjórnin tapar miklu?

Síðan langar mig að spyrja um annað. Það er áréttað að sett verði þriggja manna verkefnisstjórn og að hún eigi að hlíta sömu skilyrðum og starfsemi lífeyrissjóða. Hvaða laun fá þessir menn? Er vitað um launakjör þeirra? Er það svipað og er hjá lífeyrissjóðunum? Eitt af því sem er alveg stórfurðulegt er hversu marga lífeyrissjóði við erum með starfandi og rosalega háar launagreiðslur þar.

Mér þætti vænt um að vita bæði um tapið og hvort það sé vitað hvað það kostar að hafa þessa þriggja manna verkefnisstjórn yfir eignunum.