150. löggjafarþing — 46. fundur,  16. des. 2019.

rannsóknir á þunglyndi meðal eldri borgara.

22. mál
[19:15]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Mikið er ég ánægður með að svo virðist sem þingheimur sé núna að sameinast í stuðningi við þetta þingmannamál. Þetta er þingmál sem ég lagði fyrst fram á Alþingi fyrir 15 árum og núna, 15 árum síðar, virðist það vera að fara í gegn. Einhvern veginn er viðeigandi að sameinast gegn þunglyndi á þessum tíma árs þegar allt of margir eiga um sárt að binda. Hlutfall eldri borgara sem glíma við þunglyndi er helmingi hærra en gerist hjá öðrum aldurshópum og svo virðist sem sjálfsvíg þessa hóps séu á uppleið.

Kvíði og þunglyndi á ekki að vera eðlilegur fylgifiskur öldrunar. Vanlíðan eldri borgara snertir ekki einungis þann hóp mjög djúpt heldur einnig alla aðstandendur og fjölskyldur þeirra.

Herra forseti. Einmanaleikinn fer ekki í manngreinarálit. Þunglyndi getur herjað á okkur öll en við getum í sameiningu unnið bug á því.