150. löggjafarþing — 46. fundur,  16. des. 2019.

Húsnæðis- og mannvirkjastofnun.

319. mál
[19:37]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Ég tek undir það sem hefur komið fram í máli annarra í minni hluta velferðarnefndar um þetta mál. Málið er gott að mörgu leyti, tilgangurinn er góður og þess vegna er þeim mun verra að sá málatilbúnaður sem var viðhafður í þessu máli gerir það að verkum að ekki eingöngu hafði velferðarnefnd ekki nægan tíma til að klára málið með sóma heldur fékk nefndin mjög skýr skilaboð frá mörgum þeirra sem sendu inn umsagnir og komu þó og hittu nefndina að vænlegt hefði verið að hafa meiri tíma til að huga betur að málinu. Markmið sameiningar sem ég held að margir hér inni vilji sjá verða að veruleika næst ekki vegna þess að þeim aðilum sem áttu hlut að máli var einfaldlega ekki gefinn nægur tími. Þegar litið er á heildarferil málsins er ekki hægt að segja annað en að þar hafi handvömm ráðið för þannig að þrátt fyrir að við í Viðreisn styðjum málið í heild getum við ekki stutt þessi vinnubrögð.

Við sitjum hjá.