150. löggjafarþing — 46. fundur,  16. des. 2019.

almennar íbúðir.

320. mál
[19:55]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Það var eiginlega alveg ótrúlegt að hlusta á hæstv. félagsmálaráðherra ausa úr skálum særinda sinna yfir þingheim en þannig er bara málið statt að hann treysti sér til að hafa málið í samráðsgáttinni í eina viku í sumar. Þeir sem gáfu umsagnir þá sögðu að ein vika væri ekki nægur tími fyrir svona stórt mál. Þeir sem ekki eru aðilar að þessum lífskjarasamningi falla út af borði ríkisstjórnarinnar, falla út fyrir sjóndeildarhring hæstv. félagsmálaráðherra sem á líka að hugsa um þá sem eru öryrkjar, þá sem eiga ekki til hnífs og skeiðar í hverjum mánuði, eldri borgara, námsmenn og þá sem eru atvinnulausir. Þetta fólk er allt á málefnasviði hæstv. félags- og barnamálaráðherra. Þetta fólk verður út undan í þessari framkvæmd ríkisstjórnarinnar sem ekki gat klárað þetta mál sómasamlega, því miður, af því að það var bara einn hópur sem fékk athyglina. Það virðist vera sem ríkisstjórnin geti ekki hugsað (Forseti hringir.) um nema einn hóp í einu. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)