152. löggjafarþing — 46. fundur,  3. mars 2022.

vegurinn yfir Hellisheiði.

[10:45]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Já, það er margt með veðrið en þegar veðuröfgarnar eru eins og hv. þingmaður lýsir þá hljótum við að spyrja: Hvað ætla stjórnvöld að gera í því? Er þá búið að bæta í varðandi skilaboð til Vegagerðarinnar um að bæta í þessa þjónustu? Eins og ég gat um áðan og bæjarstjórinn í Hveragerði sagði: Tilfinningin er sú að það er opnað síðar. Það er mokað öðruvísi. Nú er hæstv. ráðherra búinn að segja að engu hafi verið breytt en er ekki ástæða til að breyta ferlum ef veðrið er orðið með þeim hætti að það er verið að loka hér yfir heiðar mun fjölfarnari götum en áður? Það er meiri traffík heldur en áður á þessum leiðum.

Ég vil ítreka spurningu mína varðandi göng. Á sínum tíma, 2012 minnir mig að það hafi verið, voru göng skoðuð. Þá lágu ákveðin álitamál til grundvallar. Það er margt búið að breytast síðan eins og ég gat um áðan. Umferðarþunginn er miklu meiri. Við erum að kalla eftir umferðaröryggi og við erum að kalla eftir því að það sé greiðfært fyrir þann hóp fólks sem býr austan fjalls og þarf að koma hingað á höfuðborgarsvæðið. (Forseti hringir.) Þannig að ég vil inna ráðherra eftir því (Forseti hringir.) hver hans skoðun er á því að plön um göng verði skoðuð betur en áður.