152. löggjafarþing — 46. fundur,  3. mars 2022.

leit að olíu og gasi í lögsögu Íslands.

[10:53]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegur forseti. Ástæðan fyrir því að ég legg áherslu á að við náum niðurstöðu í þinginu um rammaáætlun er kannski tilurð laganna um þetta efni, sem var í eðli sínu þverpólitísk sátt um að finna nýtt verklag til að ná utan um meðhöndlun og afgreiðslu á þeim orkunýtingarkostum sem við hefðum í landinu, hvernig við vildum flokka þá, hvaða kosti við vildum vernda til framtíðar, hverja vil vildum nýta og hverja við ætluðum að skoða betur. Ef þingleg meðferð þessara mála verður áfram í átakafarvegi þá tel ég að sjálfur grundvöllurinn fyrir löggjöfinni sé að bresta og þá er orðið stutt í að það sé eins gott að afnema þá löggjöf og snúa sér bara aftur að gamla laginu og taka einn kost fyrir í einu. Ef þingleg meðferð rammaáætlunar er áfram í pólitískum átakafarvegi er grunnhugsunin á bak við lögin ekki lengur til staðar. Þá er ekki sáttin sem lagt var upp með um að fylgja þessum farvegi. Það er þess vegna sem ég segi: (Forseti hringir.) Nú reynir á þingið. Þetta getur ekki eingöngu byggt á vilja meiri hluta ríkisstjórnarflokkanna (Forseti hringir.) hverju sinni.