152. löggjafarþing — 46. fundur,  3. mars 2022.

samspil verðbólgu og vaxta.

[12:04]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Þetta hefur verið ágætisumræða en kannski hefur verið skautað dálítið léttilega yfir hin raunverulegu efnahagslegu viðfangsefni og hvað sé til bóta miðað við stöðuna eins og hún blasir við okkur núna. Við höfum verið að ræða verðbólguna hér í dag. Ég hef ekki heyrt margar hugmyndir til að slá á verðbólguna en ég hef heyrt margar hugmyndir um ný útgjöld hjá ríkissjóði. Það hafa verið uppi kröfur um að auka útgjöldin í hina og þessa málaflokkana en það eitt og sér er ekki líklegt til að hjálpa okkur að takast á við þann vanda sem við erum að ræða hér, sem er í raun og veru verðbólgan og áhrif hennar á kjör fólks í landinu vegna vaxtahækkana sem fylgt hafa í kjölfarið.

Töluvert hefur verið rætt um vaxtahækkunina og fólk segir að það hjálpi ekki þó að vextir séu lágir í sögulegu samhengi. Ég ætla nú samt að halda því fram að það skipti máli að skoða hvaða hlutfall af ráðstöfunartekjum heimilanna fer í afborganir af húsnæðislánum. Það er lágt hlutfall, það er ekki mikið hærra en annars staðar á Norðurlöndunum. Skuldir heimilanna á Íslandi eru þrátt fyrir allt lægri en á hinum Norðurlöndunum, ef við notum mælikvarðann sem hlutfall af landsframleiðslu. Staða heimilanna er því miklu sterkari en umræðan hér í dag ber með sér. Það er allt of lítið sem við fáum út úr þessari umræðu, því miður, sem innlegg inn í markvissar aðgerðir til að fást við hinn undirliggjandi vanda. Ég hef verið að segja: Við þurfum að beita ríkisfjármálunum af skynsemi við þessar aðstæður og við eigum ekki að horfa í hina áttina þegar Seðlabankinn segir að nú sé framleiðsluslakinn horfinn og við séum komin inn í nýtt tímabil.

Ég furða mig á því hvað formaður Samfylkingarinnar á við þegar hann lætur sem svo að það hafi verið slæm ákvörðun hjá fólki að endurfjármagna lánin sín eða fara í fasteignakaup. (Forseti hringir.) Ég veit bara ekkert hvað menn eru að fara. Fólk hefur notið góðs (Forseti hringir.) af lágu vaxtastigi. Ég vil bara segja að sem betur fer hafa margir komist inn á markaðinn og við höfum aldrei séð álíka fjölda fyrstu íbúðarkaupenda, sem er mjög gott mál. En verkefnið heldur áfram og við eigum eftir að tæma þessa umræðu einhvern tímann síðar. Það verður ekki gert hér í dag.