152. löggjafarþing — 46. fundur,  3. mars 2022.

neytendalán o.fl.

75. mál
[13:48]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Hér erum við að fjalla um frumvarp til laga um breytingu á lögum um neytendalán, lögum um fasteignalán til neytenda, lögum um ábyrgðarmenn og lögum um neytendasamninga (ógildir skilmálar í neytendasamningum). Þetta frumvarp er mjög þarft. Flutningsmaður er hv. þm. Ásthildur Lóa Þórsdóttur og allur þingflokkur Flokks fólksins stendur á bak við og með þessu frumvarpi.

Eins og ég segi er löngu tímabært og nauðsynlegt að taka almennilega til í neytendamálum á Íslandi. Því miður verður bara að segjast eins og er að við erum eiginlega mjög aftarlega á merinni í þeim málum. Hér hafa neytendur því miður verið svo til réttlausir gagnvart stóru fjármálafyrirtækjum sem hafa haft ótakmarkað fé og lögfræðinga og mun betri aðstöðu til að réttlæta og ná rétti sínum, hvort sem hann er löglegur eða ólöglegur. Réttarvernd er eitthvað sem við þurfum að skoða vel og vendilega í neytendamálum. Ábyrgðinni er yfirleitt velt af þeim sem geta staðið undir henni, þ.e. bönkum og fjármálafyrirtækjum, yfir á neytandann, sem er gjörsamlega ófær um að standa undir þessari ábyrgð vegna þess að hann hefur ekki þá yfirsýn sem viðkomandi lánardrottnar hafa. Þar af leiðandi segir það okkur að það er ekki jafnræði þarna á milli, þarna er eiginlega Davíð að berjast við Golíat.

Það sem er eiginlega skelfilegast í svona málum er það hvernig fjármálafyrirtækin hafa einhvern veginn getað klætt sig í samfesting, sett á sig belti og axlabönd og staðið af sér hvað sem er, vegna þess að það snýst allt um það að þeir geti náð fram sínum rétti, hvort sem það er löglegt eða ólöglegt. Ef neytandi lendir í því að brotið er á honum og hann stendur frammi fyrir því að þurfa að leita réttar síns þá gefst hann yfirleitt upp. Hann hefur ekki burði til þess að berjast við þetta kerfi. Við þekkjum þetta sérstaklega úr bankahruninu og ég þekki það af eigin raun að lenda í því í bankahruninu og standa frammi fyrir því að verið sé að innheimta af manni lán sem var ólöglegt og það er búið að viðurkenna það sé ólöglegt en samt að þurfa að berjast fyrir því að reyna að fá fram réttlæti. Það var sko langt frá því að vera þrautalaust. Og hótanir og yfirgangurinn sem voru í gangi og að það skuli vera hægt að færa — þú ferð í eina stofnun og þú tekur þar ákveðið lán og það er ekki rétt gert. Síðan veldur eitthvað því að allt kerfið hrynur og þá átt þú einn standa undir því að borga og samt áttu líka að borga þó að það sé búið að færa viðkomandi lán, eða réttara sagt selja það eða gefa það yfir til annars eða þriðja aðila. Þar átt þú að fara að standa í baráttunni við þann aðila um það að borga eitthvað sem þú getur ekki borgað vegna þess að upphaflega veðið fyrir viðkomandi láni er löngu farið og það er ekki einu sinni þín eign lengur. Við sjáum bara á þessu hversu ótrúlegur munur er á réttindum þeirra sem bera ábyrgð á þessu og hinum sem ekki hafa þekkingu til að takast á við stóru fjármálafyrirtækin.

Þess vegna segi ég að þetta er mjög gott mál og líka þegar talað er um ábyrgðarmenn. Við erum með þetta furðulega kerfi, ábyrgðarmannakerfi, sem hefur verið við lýði, sem er okkur til algerrar vansæmdar vegna þess að því miður hefur það valdið mörgum fjölskyldum ótrúlegum búsifjum langt út fyrir þann einstakling sem tók lánið upphaflega og hefur jafnvel valdið keðjuverkandi gjaldþrotum út frá sér. Þannig að við eigum að taka allt þetta kerfi til endurskoðunar og þetta er skref til þess. Ég styð þetta mál heils hugar og vona heitt og innilega að núna verði loksins brettar upp ermarnar og ríkisstjórnin taki sig til og standi með neytandanum.