152. löggjafarþing — 46. fundur,  3. mars 2022.

innheimtulög.

77. mál
[14:31]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Hér er mælt fyrir enn einu frumvarpi Flokks fólksins. Flutningsmaður, hv. þm. Ásthildur Lóa Þórsdóttir, og allur þingflokkur Flokks fólksins er á bak við frumvarpið, nauðsynlegt frumvarp sem hefði þurft að vera löngu fram komið. Þarna er verið að taka á smálánafyrirtækjum, sem hafa verið ótrúlega bíræfin, og hvernig þau hafa haslað sér völl hér eftir hrunið og herjað á fátækt fólk. Okurvextirnir og okurkostnaðurinn er ótrúlegur og það segir sig sjálft að slík lán tekur enginn nema í neyð. Bæði er það fátækt fólk í neyð sem ég veit að tók jafnvel þessi lán til að kaupa sér mat og unglingar sem einhverra hluta vegna áttuðu sig ekki á því hversu hættuleg þessi lán voru og lentu flestöll í skelfilegum ógöngum. Það er okkur til háborinnar skammar að það sé hægt að keyra fram hjá lögum og koma á svona hrikalegri starfsemi eins og okurlánin eru þar sem vextir eru allt upp í hundruð prósenta eða þúsund. Við þurfum ekki að fara mjög langt aftur í tímann þegar einhver bauð einhverra hluta vegna rosalega ávöxtun fjár, upp á einhver 20–30%, og viðkomandi var tekinn til bæna fyrir að hann væri að stunda okurviðskipti með því að bjóða svo háa vexti. Síðan var bara allt gefið laust og menn máttu gera hvað sem er. Svo þegar átti að fara að hafa eftirlit með þeim þá virtust þeir geta smogið um allt án þess að hægt væri að ná í þá.

Ég vona að þetta sé ein leið til að stöðva þessa frumskógarstarfsemi sem bitnar verst á þeim sem síst skyldi. Ég styð frumvarpið heils hugar. Allt sem er gert til að koma böndum á þessa starfsemi, þessa ólöglegu og ómannúðlegu starfsemi smálánafyrirtækja, styð ég heils hugar. Það er eiginlega óskiljanlegt að ríkisstjórn eftir ríkisstjórn skuli hafa látið það viðgangast án þess að taka á þessu og stöðva þetta í eitt skipti fyrir öll. Það er okkur til háborinnar skammar að það þurfi hreinlega að leggja svona frumvarp fram til að stöðva þessa starfsemi og reyna að koma böndum á hana. Sérstaklega er þetta skammarlegt fyrir þá sem eru í ríkisstjórn og sýnir nákvæmlega hvar þeirra hugur er; með þeim sem eru með gróðafíkn til að klekkja á þeim sem síst skyldi, veiku fólki sem er að reyna að bjarga sér fyrir horn vegna þess að það hefur ekki næga framfærslu. Þetta er gott frumvarp og vonandi kemst það í gegn.