Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 46. fundur,  10. des. 2022.

um fundarstjórn.

[10:31]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P):

Forseti. Ég vil lýsa sérstakri ánægju með fundarstjórn forseta og þá dagskrá sem lagt er upp með hér í dag þar sem í raun hefur verið brugðist við dagskrárbreytingartillögu Arndísar Önnu Kristínardóttur Gunnarsdóttur frá gærdeginum um að færa eingreiðslu öryrkja fremst í dagskrána og taka útlendingamál Jóns Gunnarssonar út af henni.

En mig langar að spyrja herra forseta hvort þessi breyting sé komin til að vera vegna þess að ég óttast að stjórnarliðar haldi áfram að reyna að þrýsta í gegn fyrir jól frumvarpi Jóns Gunnarssonar um að draga úr réttindum fólks á flótta. Ég hef miklar áhyggjur af því vegna þess að það myndi, eins og við ræddum hér í gær, setja öll þingstörf í uppnám. Þess vegna langar mig að spyrja virðulegan forseta: Megum við vænta þess að útlendingamálið líti ekki dagsins ljós á dagskrá þingsins hér næstu daga? Eða þurfum við alltaf að vera á tánum upp á von og óvon um það hvort forseti muni lauma málinu á dagskrá enn og aftur?