Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 46. fundur,  10. des. 2022.

almannatryggingar.

568. mál
[10:49]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Ég ætla ekki að vera með neinar miklar málalengingar hérna núna. Þetta er mjög mikilvægt mál sem við erum að ræða og dagskráin í dag er það einnig. Það eru auðvitað fjárlög sem okkur ber að afgreiða, sama hvernig við greiðum nú atkvæði, og síðan eru mjög mikilvæg mál.

Mér fannst sérkennilegt að hv. þm. Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir skyldi ljúka góðri ræðu sinni og fylgja mjög mikilvægu máli úr hlaði á þann hátt að hér væri um eitthvert algerlega ófyrirséð mál að ræða sem hafi komið okkur öllum í opna skjöldu og þyrfti að bregðast við og þingheimur hlyti að geta sameinast um, þegar staðreyndin er sú að stór hluti mannkyns eða einhver hluti mannkyns hefur haldið jól í 2000 ár og við Íslendingar í 1000 ár og við vissum að þessi tími kæmi þegar sérstaklega dýrt er að halda utan um fjölskyldur sínar.

Samfylkingin styður auðvitað þetta mikilvæga mál en við hörmum það hins vegar að ríkisstjórnin hafi ekki komið í veg fyrir að þessi tekjulági hópur, þessi tekjuversti hópur landsmanna, ásamt þessum hópi eldri borgara sem hv. þm. Inga Sæland kemur með góða breytingartillögu um, þurfi að bíða fyrir hver jól með öndina í hálsinum eftir því hvernig þingstörfum vindur fram eða hvort stjórnarmeirihlutanum þóknast til að bæta örlítið í það sem lítið er fyrir. Það er auðvitað bara mjög hollt fyrir okkur sem erum hér að minna okkur á að við getum gengið býsna brött og glaðbeitt inn í jólahaldið og þurfum a.m.k. ekki að hafa áhyggjur af efnahagslegri hlið jólahaldsins á meðan þessi hópur fyllist kvíða á hverju hausti vegna þess að þarna er fólk sem er að reka fjölskyldu, sem á börn, sem á barnabörn, sem vill í sjálfu sér gera vel við sig en ekki síður ástvini sína og þess vegna er þetta náttúrlega ömurlegt, herra forseti.

Að öðru leyti langar mig aðeins að stikla á, án þess að vitna beint í minnihlutaálit hv. þm. Kristrúnar Frostadóttur, sem mælti fyrir 1. minni hluta um daginn, þar sem hún bendir á hvernig öllu er í rauninni haldið í heljargreipum í þessum málaflokki og svo mörgum öðrum, bara til að geta komið svo í 2. umr. með viðbætur og látið líta út eins og verið sé að hefja stórsókn í einhverjum málum. Væntingastjórnin er með öðrum orðum sú að það eigi að halda fólki í óvissu um trygga framtíð og bæta svo örlítið í. Við getum bara ekki sætt okkur við það, herra forseti, að við séum að gera hrossakaup með líf fólks í landinu og allra síst fátækasta fólkið sem hér býr. Við fögnum auðvitað líka þeim breytingum sem hafa verið gerðar núna í haust og eru fyrirhugaðar, að hækkun almannatrygginga fylgi verðlagi. En þó það nú væri, herra forseti, vegna þess að það er lagaskylda. Það er engin stefna ríkisstjórnar, hún er eingöngu að framfylgja því sem hún á að gera. Við fögnum því auðvitað líka að það eigi að hækka frítekjumarkið upp í 200.000, frítekjumark sem hefur staðið óhreyft í mörg ár, hækkun sem Samfylkingin og fleiri flokkar í stjórnarandstöðunni lögðu til fyrir einu ári en félagsmálaráðherra hafnaði þá. Auðvitað fögnum við þessu. En því miður hefði þetta getað verið komið miklu fyrr og þrátt fyrir þetta, herra forseti, munum við áfram horfa upp á viðvarandi kjaragliðnun milli launþega og þessa hóps.

Við skulum samþykkja þetta og við skulum gleðjast yfir því að við náum að samþykkja þetta, að við skulum ekki berja okkur mikið á brjóst vegna þess að við erum ekki að gera neitt annað en að sparsla í sprungur sem við erum sjálf búin að leyfa að viðgangast hér í þessum málaflokki í allt of langan tíma. Þannig að já, við skulum greiða atkvæði með þessu og þetta er nauðsynlegt mál, en við þurfum að gera svo miklu, miklu betur til að koma til móts við þennan hóp. Og í guðanna bænum festum þá í sessi þennan jólabónus eins og hann er framkvæmdur gagnvart nánast öllum launþegum í landinu, en komum ekki hérna á síðustu stundu og látum eins og við séum að bjarga einhverjum hópi. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)