154. löggjafarþing — 46. fundur,  8. des. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[15:39]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Við greiðum atkvæði um fjárlagafrumvarp eftir 2. umræðu. Mikil vinna hefur átt sér stað í nefndinni og vil ég þakka nefndarmönnum, hv. þingmönnum sem sitja í hv. fjárlaganefnd, fyrir ágæta umræðu í nefndinni og hér í þinginu síðustu daga og auðvitað öllum hv. þingmönnum. Ég fagna því jafnframt að nefndin gerir breytingartillögur sem stuðla að auknu aðhaldi í ríkisfjármálum sem er sá tónn sem ég vona að komi frá nefndinni á næstu misserum. Hér er um aðhaldssöm fjárlög að ræða. Stóra verkefnið næsta árið er að ná niður verðbólgunni og að ríkisfjármálin styðji við peningastefnu Seðlabankans. Markmiðið er að ná þeim verðstöðugleika sem ríkti hér árin 2013–2020, fyrir þau innlendu og erlendu áföll sem við höfum verið að eiga við eins og fall WOW air, heimsfaraldur og stríð í Evrópu og nú síðast það sem við höfum verið að upplifa í tengslum við Grindavík. Okkar stóra sameiginlega verkefni er að ná niður verðbólgunni og tryggja verðstöðugleika og halda áfram að byggja upp kaupmáttinn fyrir almenning í landinu.