154. löggjafarþing — 46. fundur,  8. des. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[18:01]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Frú forseti. Ég styð þessa tillögu af heilum hug. Það er ekki eingöngu þannig að kannanir sýni hversu mjög hallar á hinsegin ungmenni í skólum landsins, vanlíðan og almennt umhverfi dregur einfaldlega úr getu þeirra til að nýta skólakerfið. Það hallar á jafnréttið, það hallar á tækifæri þessa hóps. Það hefur ítrekað komið fram að ekki eingöngu þarf að styðja þennan hóp, það þarf að styðja kennara landsins og skólafélaga til þess að þetta virki af því að við viljum að samfélag okkar virki. Samtökin '78 hafa ítrekað sýnt getu sína og færni til að standa undir þessu verkefni þannig að það er fátt sem við gerum betur í því að styðja þennan hóp en að veita samtökunum þessa viðbótarfjáraukningu.