131. löggjafarþing — 46. fundur,  2. des. 2004.

Fjáraukalög 2004.

76. mál
[13:39]

Guðjón A. Kristjánsson (Fl) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Við göngum nú til afgreiðslu fjáraukalaganna. Það er algjörlega ljóst að fjáraukinn allur eins og hann er hér til lokaafgreiðslu er á ábyrgð ríkisstjórnarinnar. Í fjáraukalögunum er verið að lagfæra suma liði sem bent var á við afgreiðslu fjárlaganna sl. haust og voru þá þegar fyrirséðir. Við höfum oft bent á að æskilegt væri að taka þetta að meira leyti inn í fjárlögin þegar hægt er að sjá fyrir að á muni vanta. Svo hefur ekki verið gert til þessa og afgreiðsla fjáraukalaganna er algjörlega á ábyrgð ríkisstjórnarinnar.